Fótbolti

Þóra Björg: Hefði fengið SMS og snöpp í tíu ár

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þóra var létt og kát í leikslok.
Þóra var létt og kát í leikslok. Vísir/stefán
Landsliðsmarkvörðurinn Þóra Björg Helgadóttir kvaddi íslenska landsliðið í kvöld er Ísland vann 9-1 stórsigur á Serbíu. Ferill Þóru spannar 108 leiki á sextán árum en í kvöld skoraði hún sitt fyrst - og eina - landsliðsmark.

Þegar Ísland fékk vítaspyrnu í síðari hálfleik kallaði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, að Þóra ætti að taka spyrnuna.

„Ég var að farast úr stressi,“ sagði hún við blaðamann Vísis eftir leikinn í kvöld. „Svo af einhverjum ástæðum talaði markvörðurinn þeirra sænsku og byrjaði að bulla eitthvað í már,“ bætti hún við en téður markvörður, Susanne Nilsson, er fædd og uppalin í Svíþjóð en á serbneska móður.

„Er það - er hún sænsk?“ sagði Þóra þegar blaðamaður tjáði henni það. „En ég lét eins og ég heyrði ekkert og reyndi að einbeita mér að vítinu. Það var búið að stríða mér svo mikið á því að hafa klúðrað vítinu í bikarleiknum með Fylki að það kom ekki til greina að klikka núna. Ég hefði fengið SMS og „snöpp“ næstu tíu árin.“

„Ég ákvað því bara að bomba á markið. Það eru alltaf góðar líkur á því að boltinn fari þá inn,“ sagði markvörðurinn öflugi.

Hún sagði það erfitt að koma því í orð hvernig henni liði við þessi tímamót en að hún væri sátt við ákvörðunina. „Ég verð sátt þegar ég vakna á morgun en kannski svolítið leið. Maður hefur upplifað svo margt - bæði gott og slæmt en fyrst og fremst frábærar stundir með ótal góðum félögum.“

„Það eru örugglega 100 manns sem ég gæti þakkað. Þakklætið er gríðarlegt,“ sagði Þóra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×