Skoðun

Lögreglustjóri vanhæfur

Einar Steingrímsson skrifar
Fyrir skömmu lagði ríkissaksóknari fyrir lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, Stefán Eiríksson, að rannsaka lekamál innanríkisráðuneytisins, þar sem ráðherra og aðrir starfsmenn ráðuneytisins hafa verið kærðir fyrir hegningarlagabrot.

Að ríkissaksóknari hafi fyrirskipað lögreglurannsókn, eftir að hafa sjálfur rannsakað málið í tvo mánuði, þýðir að hér er ekki um að ræða kærur einhverra kverúlanta sem eru að reyna að trufla eðlileg störf ráðuneytisins, eins og bæði forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað haldið fram, líklega gegn betri vitund, því þeir eru varla svo skyni skroppnir að ætla að ríkissaksóknari stundi slíkan hráskinnaleik.

Í löndum með sæmilega heiðarlegt réttarfar hefði ráðherra vikið tímabundið eftir þessa ákvörðun ríkissaksóknara, þar sem ráðherrann er æðsta yfirvald þess réttarkerfis sem á að rannsaka málið, og ákæra ráðherrann og dæma ef til þess kemur. Svo virðist þó sem ráðherra ætli að sitja áfram sem yfirmaður þeirra sem eiga að rannsaka hann.

Þessi þaulseta ráðherra gerir hins vegar lögreglustjórann sem á að rannsaka málið vanhæfan skv. 3. gr. stjórnsýslulaga, en þar segir m.a. að maður sé vanhæfur „Ef hann á sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta“, og „Sama á við ef næstu yfirmenn hans hjá hlutaðeigandi stjórnvaldi eiga sjálfir sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta.“ Enn fremur „Ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.“

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu er skipaður af innanríkisráðherra og á því augljóslega verulegra hagsmuna að gæta gagnvart ráðherranum, sem þar að auki hefur gríðarleg áhrif á fjárveitingar og önnur starfsskilyrði embættisins.

Yfirmaður Stefáns er ríkislögreglustjóri, sem heyrir beint undir ráðherra og á ekki minni hagsmuna að gæta. Síðast en ekki síst er það núverandi ráðherra, ef hún situr áfram, sem ákveður hvort Stefán fær áframhaldandi skipun í embætti, eða hvort staðan verður auglýst.

Í réttarríki hefði aldrei komið til þess að málið þyrfti að ræða á þessum nótum; ráðherrann hefði vikið, en lögreglustjóri annars lýst sig vanhæfan.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×