Innlent

Útlendingar brjálaðir í íslenska skyrið

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Íslenska skyrið er allsstaðar að slá í gegn á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum því Mjólkursamsalan gerir ráð fyrir að selja sextíu milljón dósir í ár á meðan átta milljón dósir munu seljast hér heima.

Starfsmenn Mjólkursamsölunnar hafa vart undan að framleiða og pakka íslenska skyrinu sem er flutt úr landi en mesta salan er í Finnlandi, Noregi, Sviss, Færeyjum og Grænlandi, auk þess sem lítill hluti fer á Bandaríkjamarkað. Aðalsteinn H. Magnússon er sölustjóri hjá Mjólkursamsölunni.

„Á Íslandi er aukningin 20% á þessu ári og hún var 20% í fyrra, þannig að við tengjum þetta beint við mikinn ferðamannafjölda. Við erum að selja átta milljónir dósa á íslenska markaðnum og síðan erum við auðvitað að flytja heilmikið út og reiknum með að selja sextíu milljónir á þessu ári“, segir Aðalsteinn.

Þetta eru svakalegar tölur ? „Þetta eru rosalegar tölur, salan í Skandinavíu á síðustu fjórum til fimm árum hefur á síðustu árum tífaldast“, bætir hann við.

Um 1/3 af skyrinu fer í gegnum Mjólkursamsöluna og eru tekjur af því um 1800 milljónir. Síðan eru 2/3 af þessum 60 milljónum dósa seldir með leyfissamningum þar sem skyrið er framleitt hjá leyfishafa undir eftirliti Mjólkursamsölunnar.

Aðalsteinn segir að fram  til þessa hafi bændur náð að framleiða næga mjólk en unnið er að því með öllum tiltækum ráðum að auka framleiðsluna. Smekkur skyrsins er mjög mismunandi eftir löndum.

„Já, okkur Íslendingum finnst best að borða vaniluskyr og bláberjaskyr jafnvel en Finnarnir eru vitlausir í skyr með bökuðum eplum,“ segir Aðalsteinn.

Mjólkursamsalan hefur verið með mjólkurtorg í miðbæ Reyjavíkur í sumar þar sem ferðamenn hafa fengið að smakka á íslenska skyrinu. Allir eru þeir brjálaðir í íslenska skyrið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×