Erlent

Þýska samsteypustjórnin komin í vanda

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Sigmar Gabriel og Angela Merkel, leiðtogar þýsku stjórnarflokkanna.
Sigmar Gabriel og Angela Merkel, leiðtogar þýsku stjórnarflokkanna. Vísir/AP
Mál þýska þingmannsins Sebastians Edathy, sem grunaður er um að hafa haft barnaklám í fórum sínum, hefur orðið til þess að skapa vantraust milli flokka þýsku samsteypustjórnarinnar.

Einn ráðherra, Hans-Peter Friedrich, hefur þegar sagt af sér vegna málsins. Hann var innanríkisráðherra í október og fékk þá upplýsingar frá lögreglu um að Edathy sætti rannsókn.

Friedriech, sem er úr Kristilega sambandsflokknum, systurflokki Kristilega demókrataflokksins, upplýsti leiðtoga Sósíaldómkrataflokksins fljótlega um málið í trúnaði, en grunur leikur á að upplýsingar hafi lekið frá þeim til Edathys sjálfs, sem hafi þannig fengið tækifæri til að gera ráðstafanir til að verjast rannsókn lögreglu.

Kröfur hafa því skotið upp kollinum um að Sigmar Gabriel, sem er bæði efnahagsráðherra og leiðtogi Sósíaldemókrataflokksins, segi einnig af sér og jafnvel þeir Frank-Walter Steinmeier utanríkisráðherra og Thomas Oppenheim þingflokksformaður sömuleiðis.

Edathy sagði af sér þingmennsku þann 7. febrúar en neitar öllum ásökunum um að hafa haft barnaklám í fórum sínum. Hann virðist hins vegar hafa vitað af rannsókn lögreglunnar í síðasta lagi í lok nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×