Innlent

Ríkið skoðar lögmæti gjaldtöku

Brjánn Jónasson skrifar
Þjóðgarðsvörður segir koma til greina að leggja stíg að Dettifossi sem ekki liggi um landareign Reykjahlíðar.
Þjóðgarðsvörður segir koma til greina að leggja stíg að Dettifossi sem ekki liggi um landareign Reykjahlíðar. Fréttablaðið/Vilhelm
Ríkið kannar nú hvort fyrirhuguð gjaldtaka landeigenda við Dettifoss, Námaskarð og víðar í landareign Reykjahlíðar standist lög. Landeigendur hafa boðað 800 króna gjald fyrir að skoða Dettifoss, Námaskarð og Leirhnjúk, en 1.800 séu allir staðirnir skoðaðir.

Ólafur H. Jónsson, formaður landeigendafélagsins, segir ekki standa til að hætta við gjaldtöku. Sett hefur verið upp heimasíða, natturugjald.is, þar sem málstaður landeigenda er kynntur. Á síðunni virðist eiga að setja upp leið fyrir fólk að greiða aðgangseyri inn á svæðið, en greiðslukerfið er óvirkt sem stendur.

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps harmar fyrirhugaða gjaldtöku og telur hana skaða ímynd sveitarfélagsins. Í nýlegri bókun sveitarstjórnar eru landeigendur hvattir til að fresta gjaldtökunni meðan unnið sé að lausn málsins á landsvísu. Dettifoss er í landi Vatnajökulsþjóðgarðs, en vinsælasta leiðin til að skoða hann liggur í gegnum landareign Reykjahlíðar.

„Maður vonar það besta en býr sig undir það versta,“ segir Hjörleifur Finnsson, þjóðgarðsvörður á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. „Það versta er ef við þurfum að leggja nýja gönguleið. Við höfum enn fulla trú á að það sem þeir eru að gera standist ekki lög.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×