Erlent

Átökin harðna í Úkraínu

stjórnarherinn í Slovjansk Úkraínskir hermenn í Slovjansk við eina af þeim eftirlitsstöðvum uppreisnarmanna sem stjórnarherinn náði á sitt vald í gær.Nordicphotos/AFP
stjórnarherinn í Slovjansk Úkraínskir hermenn í Slovjansk við eina af þeim eftirlitsstöðvum uppreisnarmanna sem stjórnarherinn náði á sitt vald í gær.Nordicphotos/AFP vísir/ap
Uppreisnarmenn í austanverðri Úkraínu skutu niður tvær þyrlur stjórnarhersins í gær, eftir að stjórnarherinn í Úkraínu hóf fyrstu stórsókn sína gegn þeim.

Úkraínustjórn fullyrti síðan að stjórnarherinn hefði fellt eða sært fjölda uppreisnarmanna. Stjórnin skýrði einnig frá því að tveir hermenn úr stjórnarhernum hefðu látið lífið.

Rússlandsstjórn sagði atburði gærdagsins greinilegt merki þess að tveggja vikna gamalt friðarsamkomulag, sem gert var í Genf, sé að engu orðið.

Angela Merkel Þýskalandskanslari heimsótti Barack Obama Bandaríkjaforseta í gær, og sögðust þau reiðubúin til þess að herða enn frekar refsiaðgerðir gegn Rússum, bæði rússneskum ráðamönnum og rússnesku efnahagslífi.

Til átaka kom eldsnemma í gærmorgun skammt frá borginni Slovjansk, þar sem aðskilnaðarsinnar höfðu náð stjórnarbyggingum á sitt vald rétt eins og í mörgum fleiri borgum í austurhluta landsins.

Stjórnarherinn mætti harðri mótspyrnu frá aðskilnaðarsinnum, en undir kvöld fullyrti Oleksander Túrtsjínov Úkraínuforseti að herinn væri búinn að ná á sitt vald öllum þeim eftirlitsstöðvum, sem uppreisnarmenn höfðu komið sér upp í kringum borgina. Stjórnarhernum hafði samt síðdegis í gær ekki tekist að ná stjórnarbyggingunum úr höndum aðskilnaðarsinna.

„Öryggissveitir okkar eru að berjast við málaliða erlendra ríkja, hryðjuverkamenn og glæpamenn,“ sagði Túrtsjínov, sem ítrekað hefur sakað rússnesk stjórnvöld um að styðja aðskilnaðarsinna og kynda undir ólguna í austurhluta landsins.

Einnig kom til átaka í gær milli stjórnarhersins og aðskilnaðarsinna í hafnarborginni Odessa við Svartahafið, en til þessa hefur uppreisn úkraínskra aðskilnaðarsinna lítt látið á sér kræla þar í borg. Í átökunum þar í gær kviknaði í byggingu með þeim afleiðingum að rúmlega 30 manns brunnu inni.

Friðarsamningurinn, sem gerður var í Genf í síðasta mánuði, snerist um að uppreisnarmenn létu af hendi þær stjórnarbyggingar, sem þeir hafa lagt undir sig, gegn því að Úkraínustjórn léti eiga sig að ráðast gegn þeim með hervaldi.

Aðskilnaðarsinnar hafa í engu orðið við þessu, en Rússar hafa skorað á Úkraínustjórn að beita ekki hervaldi gegn aðskilnaðarsinnum. Á hinn bóginn saka Rússar Úkraínustjórn um að hafa notað hryðjuverkamenn úr samtökum öfgaþjóðernissinna til hernaðaraðgerða gegn aðskilnaðarsinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×