Erlent

Talíbanar fagna fangaskiptum

Bjarki Ármannsson skrifar
Bowe Bergdahl hvarf úr herbúðum í Afganistan árið 2009.
Bowe Bergdahl hvarf úr herbúðum í Afganistan árið 2009. Vísir/AFP
Múlla Mohammad Omar, leiðtogi talíbana í Afganistan, segir í tilkynningu að skiptin á fimm föngum úr Guantanamo-fangabúðunum fyrir bandarískan hermann sem var í haldi talíbana sé „stórsigur“. Hinn 28 ára gamli Bowe Bergdahl var afhentur bandarískum hersveitum í Afganistan á laugardag.

Frá þessu greinir fréttastofa BBC. Skiptin hafa verið umdeild, meðal annars vegna þess að bandaríska þingið var ekki látið vita með mánaðar fyrirvara að til stæði að sleppa föngunum úr haldi. Chuck Hagel, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur varið þessa ákvörðun og segir að stjórnvöld hafi þurft að bregðast mjög hratt við til að bjarga lífi Bergdahls.

Omar hefur aldrei komið fram opinberlega síðan hann flúði Afganistan við innrás Bandaríkjamanna árið 2001. Hann segist í tilkynningu sinni óska allri afgönsku múslímaþjóðinni „innilega til hamingju“.

Ríkisstjórn Afganistans var ekki látin vita af samkomulagi Bandaríkjanna og talíbana fyrr en eftir að fangaskiptin höfðu farið fram. Hún segir skiptin brjóta í bága við alþjóðalög.

Bergdahl hefur verið fluttur til Þýskalands þar sem hann fær frekari aðhlynningu. Hann var eini bandaríski hermaðurinn í haldi talíbana.


Tengdar fréttir

Talibanar bjóða fangaskipti

Talibanar hafa gert Bandaríkjamönnum tilboð um að sleppa bandarískum hermanni úr haldi gegn því að fimm hátt settum liðsmönnum þeirra verði sleppt úr fangabúðunum í Guantanamo.

Biðla til mannræningja

Fjölskylda Bowe Bergdahl bandarísks hermanns sem var tekinn gísl, í austurhluta Afganistans í júní síðastliðnum, biðlar til mannræningjanna um að sleppa syni þeirra. Þau hvetja jafnframt son sinn til þess að vera sterkur. Yfirlýsing frá fjölskyldu Bergdahls var lesin upp fyrir fjölmiðla í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×