Lífið

Óli Geir vísar sögusögnum á bug

Óli Geir fórnaði öllu fyrir Keflavík Music Festival.
Óli Geir fórnaði öllu fyrir Keflavík Music Festival. Fréttablaðið/Anton Brink
„Þetta er ekki rétt,“ segir Ólafur Geir Jónsson, betur þekktur sem Óli Geir, aðspurður um háværar sögusagnir þess efnis að fullyrðingar í pistli sem hann birtir á Facebook fyrir stuttu varðandi tónlistarhátíðina Keflavík Music Festival séu rangar. Í pistlinum skrifar Óli Geir að hátíðin hafi komið út í þrjátíu milljóna mínus.

„Við töpuðum eignum okkar, bifreiðum okkar, við töpuðum öllu,“ skrifar Óli Geir jafnframt en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins missti hann ekki húsnæði sitt. Þessar sömu heimildir herma að Óli Geir hafi nýverið fjárfest í sjónvarpi fyrir milljón krónur.

„Ég missti húsnæðið og bý nú í leiguhúsnæði í Reykjanesbæ. Það er heldur ekki rétt að ég hafi keypt mér sjónvarp á milljón krónur,“ segir Óli Geir þungur á brún enda hefur mikið mætt á honum síðustu mánuði.

Keflavík Music Festival var haldin í júní og vakti mikla athygli en tónlistarmenn sem áttu að koma fram á hátíðinni gagnrýndu skipulag hennar. Í pistlinum sem Óli Geir skrifar á Facebook segist hann hafa gert upp vegna allra tónlistaratriðanna á hátíðinni nema átta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×