Erlent

Staðsetningarkerfi heilans kortlagt

Guðsteinn Bjarnason skrifar
May-Britt Moser brosti breitt í gær, eftir að hafa fengið staðfest að hún fengi Nóbelsverðlaunin í lífeðlisfræði í ár.
May-Britt Moser brosti breitt í gær, eftir að hafa fengið staðfest að hún fengi Nóbelsverðlaunin í lífeðlisfræði í ár. Nordicphotos/AFP
„Ég er enn í áfalli. Þetta er svo stórkostlegt,“ sagði May-Britt Moser þegar fjölmiðlar ræddu við hana í gær. Hún fær Nóbelsverðlaunin í læknis- eða lífeðlisfræði þetta árið ásamt eiginmanni sínum Edvard og Bandaríkjamanninum John O'Keefe.

Sænska Nóbelsverðlaunanefndin skýrði frá þessu í gær. Verðlaunin fá vísindamennirnir þrír fyrir að hafa uppgötvað ákveðnar tegundir af heilafrumum sem gera okkur kleift að staðsetja okkur í umhverfinu og rata um heiminn.

Í tilkynningu Nóbelsverðlaunanefndarinnar segir að þau hafi uppgötvað staðsetningarkerfi heilans, „innra GPS-kerfi“ sem hjálpar okkur að átta okkur á umhverfinu.

O'Keefe er 75 ára gamall og tók fyrstu skrefin í þessum rannsóknum árið 1971 þegar hann tók eftir því að ákveðnar frumur í rottuheilum, nánar tiltekið á svonefndu drekasvæði í heilanum, urðu virkar þegar rotturnar voru staddar á ákveðnum stöðum. Sömu frumurnar urðu virkar þegar rotturnar komu á ákveðinn stað, en aðrar frumur þegar þær fóru á aðra staði. Hann sýndi jafnframt fram á að þessar frumur, sem nefndar hafa verið staðarfrumur, bregðast ekki bara við sjónrænu áreiti heldur búa til kort af umhverfinu. Þau May-Britt og Edvard I. Moser eru norsk, bæði rétt rúmlega fimmtug, en þetta er í fjórða sinn sem hjón deila með sér Nóbelsverðlaununum.

Þau fundu árið 2005 aðra tegund af frumum, svonefndar hnitakerfisfrumur, sem búa til eins konar umgjörð eða hnitakerfi fyrir nákvæma staðsetningu lífverunnar í umhverfinu.

Nóbelsverðlaunanefndin segir uppgötvanir þessar hafa „leyst úr vandamáli sem heimspekingar og vísindamenn hafa glímt við öldum saman – hvernig heilinn býr til kort af umhverfinu í kringum okkur og hvernig við förum að því að rata í gegnum flókið umhverfi.“

Þessar uppgötvanir hafi jafnframt „markað ný viðmið í skilningi okkar á því hvernig hópar af sérhæfðum frumum vinna saman að því að útfæra æðra vitsmunastarf.“ Þær hafi „opnað nýjar leiðir til skilnings á oðru vitsmunastarfi, svo sem minni, hugsun og áætlunargerð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×