Innlent

Verkfall lækna hófst á miðnætti

Formaður Læknafélags Íslands telur ólíklegt að lausn náist í bráð.
Formaður Læknafélags Íslands telur ólíklegt að lausn náist í bráð. Vísir/Ernir
Tveggja sólarhringa langt verkfall lækna á kvenna- og barnasviði og rannsóknasviði Landspítalans, á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni hófst á miðnætti.

„Þessu er skipt í tveggja daga verkföll og ef við náum ekki að semja þá hefst verkfall á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og lyflækningasviði Landspítalans næstkomandi miðvikudag,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands (LÍ).

Síðasti samningafundur LÍ og samninganefndar ríkisins var haldinn síðasta miðvikudag. Næsti fundur í deilunni er fyrirhugaður hjá ríkissáttasemjara á morgun.

„Það hefur ekkert gengið í viðræðunum og því er ég ekki bjartsýnn á lausn í bráð,“ segir Þorbjörn.

Hann tekur fram að öllum bráðatilvikum verði sinnt, líkt og í síðustu verkfallslotu, og að öryggi sjúklinga verði tryggt.

Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar lækna, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að mikil hætta væri á að fjöldi lækna á Landspítalanum segði upp störfum verði ekki samið fyrir áramót.

Skurðlæknar hafa einnig boðað verkfallsaðgerðir sem eiga að hefjast á morgun og standa yfir í tvo sólarhringa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×