Viðskipti innlent

Seinkunin bagaleg

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Fríverslun við arabaríki við Persaflóa seinkar.
Fríverslun við arabaríki við Persaflóa seinkar. Fréttablaðið/Stefán
Dráttur sem verður á innleiðingu fríverslunarsamnings EFTA við Persaflóaríkin er bagalegur fyrir fyrirtæki sem höfðu gert ráð fyrir að hann tæki gildi um mitt þetta ár. Að því er fram kemur í áliti Félags atvinnurekenda (FA) höfðu þau lagt í öflun viðskiptasambanda vegna fríverslunarinnar.

Í tilkynningu sem utanríkisráðuneytið birti, eftir ábendingu FA, segir að samningurinn sé á milli EFTA og Samstarfsráðs arabaríkjanna við Persaflóa (GCC), en því tilheyra Sádi-Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein, Óman, Katar og Kúveit.

Samningurinn kveði á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. „Að auki gerðu Ísland og aðildarríki GCC með sér tvíhliða samkomulag um viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur,“ segir ráðuneytið.

Samningurinn gekk í gildi 1. júlí síðastliðinn, en fram kemur að aðildarríki GCC hafi nýlega upplýst EFTA-ríkin um að dráttur hafi orðið og muni áfram verða á framkvæmd hans. Fram kemur að samningur komist jafnvel ekki til framkvæmda fyrr en um mitt næsta ár.

FA kveðst vita um fyrirtæki sem lent hafi í vandræðum af þessum sökum, bæði vegna útflutnings til Persaflóaríkjanna og innflutnings til Íslands.

„Fyrirtæki hafa lagt í vinnu og fyrirhöfn til að afla sér viðskiptasambanda á grundvelli samningsins og það er afar bagalegt þegar í ljós kemur að hann virkar ekki,“ segir í umfjöllun FA, sem hvatt hefur utanríkisráðuneytið til að beita sér í málinu og reyna að stuðla að því að fríverslunarsamningurinn verði virkur sem fyrst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×