Erlent

Yfirgefa Afganistan eftir þrettán ára veru

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hershöfðinginn John Campbell fjarlægir fána ISAF-sveitanna.
Hershöfðinginn John Campbell fjarlægir fána ISAF-sveitanna. vísir/afp
Hersveitir Atlantshafsbandalagsins í Afganistan (ISAF) munu ekki taka þátt í frekari hernaðaraðgerðum þar í landi. Þar með lýkur þrettán ára hersetu Bandaríkjamanna í landinu.

Í gær fór fram athöfn þar sem fáni ISAF var dreginn niður og fáni nýs verkefnis hífður að húni. Nýja verkefnið hefur fengið nafnið Resolute Support en þeir sem taka þátt í því munu koma að þjálfun afganskra lögreglu- og hermanna. Undirbúningur þess hefur staðið lengi en því var formlega ýtt úr vör í gær.

„Við höfum leitt afgönsku þjóðina úr myrkrinu og gefið henni von um bjartari framtíð,“ sagði hershöfðinginn John Campbell í ræðu á athöfninni.

Þegar ISAF var sem stærst voru í því yfir 130.000 hermenn af yfir fimmtíu þjóðernum. Alls týndu um 3.500 erlendir hermenn lífinu við störf sín í Afganistan. Eftir áramót verða eingöngu um 12.000 manns eftir og á enginn þeirra að taka þátt í bardögum.

„Öryggismál Afganistan munu héðan í frá vera alfarið í höndum þeirra 350.000 manna sem skipa lögreglu- og herlið landsins,“ segir Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, í yfirlýsingu.

Árið sem nú er að líða undir lok er það blóðugasta í Afganistan síðan árið 2001 en tæplega 5.000 meðlimir öryggissveita landsins hafa fallið í bardögum við talibana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×