Erlent

Tíu farþegar ferjunnar lifðu slysið ekki af

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Slökkvibátar reyna að ná stjórn á eldinum meðan þyrla bjargar farþegum.
Slökkvibátar reyna að ná stjórn á eldinum meðan þyrla bjargar farþegum. vísir/ap
Tala látinna eftir að eldur kom upp á dekki ferju Norman-Atlantic á Jónahafi nærri albönsku strandlengjunni í fyrradag var í kvöld komin upp í tíu.

Tæplega fimm hundruð farþegar, helmingur frá Grikklandi en einnig fjöldi frá Ítalíu, Þýskalandi og Albaníu auk fleiri landa, voru um borð þegar eldurinn kom upp en björgunaraðgerðir tóku tæpar fjörutíu klukkustundir. Skipstjóra skipsins var bjargað síðustum frá borði.

Eldurinn kviknaði á sunnudagsmorgun og hófust björgunaraðgerðir skömmu eftir að neyðarkall barst. Aðstæður voru erfiðar en vindhraði á svæðinu var um þrjátíu metrar á sekúndu. Björgunarmenn á þyrlum unnu að því í alla fyrrinótt að koma fólki frá borði en reykur frá eldinum gerði aðgerðir ekki auðveldari.

Enn logaði í ferjunni í gær þrátt fyrir aðgerðir slökkvibáta en hún var á leið frá Patras í Grikklandi til Ancona á Ítalíu. Ítalska landhelgisgæslan vinnur nú að því að koma skipinu í höfn.

Flestir farþeganna voru fluttir yfir í nærstödd skip en aðrir, sem höfðu ofkælst eða fengið vott af reykeitrun, voru fluttir beinustu leið á sjúkrahúsið í Brindisi.

Ekki er ljóst hvað olli því að eldurinn braust út. Ítalskur saksóknari hefur gefið út að rannsókn sé hafin á því hvort eldsvoðann megi rekja til vanrækslu skipstjóra eða starfsmanna ferjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×