Erlent

Podemos er nýtt pólitískt afl Spánverja

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Pablo Iglesias er stofnandi og formaður Podemos. Hann er félagsfræðingur að mennt.
Pablo Iglesias er stofnandi og formaður Podemos. Hann er félagsfræðingur að mennt. vísir/afp
Pólitískt landslag Spánar hefur breyst mikið á árinu sem er að líða. Í upphafi árs var þar stofnaður nýr stjórnmálaflokkur sem mælist nú næststærsti flokkur landsins með um fjórðungs fylgi á bak við sig. Flokkur þessi kallast Podemos og gera flestir ráð fyrir því að hann muni hafa mikil áhrif á úrslit þingkosninga á Spáni í desember á næsta ári.

Stofnandi og formaður flokksins er 36 ára félagsfræðiprófessor að nafni Pablo Iglesias. Podemos, sem þýðir „Við getum“, er nú með svipað fylgi og sósíalistaflokkurinn PSOE og mælist stærri en PP, flokkur forsætisráðherrans Marianos Rajoy. PP hlaut tæplega helming atkvæða í kosningum árið 2011 en er nú með rúm tuttugu prósent.

Ríkisstjórn Rajoys hefur brugðist við fylgistapinu með því að leggja fram frumvörp sem ólíklegt þykir að annars hefðu litið dagsins ljós. Meðal annars má nefna að til stendur að hækka lágmarkslaun, breytingar á atvinnuleysisbótakerfinu og frumvarp sem á að draga úr spillingu. Aðrir flokkar hafa skipt um fólk í brúnni.

Forvígismenn Podemos segja að gömlu flokkarnir misskilji einfaldlega umhverfið. Þeir hafi ríkt yfir landinu í rúma fjóra áratugi og þeirra tími sé liðinn. Podemos bjóði ekki aðeins upp á nýtt fólk heldur nýjan hugsunarhátt.

Vilja uppræta spillingu í viðskiptum og stjórnmálum

Helsta stefnumál flokksins er að uppræta spillinguna sem einkennt hefur spænskt viðskiptalíf og stjórnmál undanfarin ár. Í upphafi mánaðarins gaf Podemos út sextíu síðna rit um hvernig skuli staðið að endurreisn efnahags landsins. Einnig hefur flokksforystan gefið út að Baskar fái að kjósa um sjálfstæði sitt og að halda eigi þjóðaratkvæðagreiðslu um afdrif konungsembættis Spánar. Jafnframt að hinum venjulega Spánverja, sem áður var hunsaður af stjórnmálamönnum, verði léð rödd.

Eitt sérkenna flokksins er að koma upp umræðuhópum um allt land sem hittist vikulega og ræði málin. Stefnumál flokksins séu alls ekki fastmótuð heldur breytist í takt við vilja flokksmanna. Á fundunum sé enginn stjórnandi, hver sem er geti tekið til máls og kosið sé um alla mögulega hluti.

„Ég mæti á fundi því Podemos er sveigjanlegur og lýðræðislegur flokkur sem ég treysti til að reyta arfann úr spænska stjórnkerfinu,“ segir 32 ára atvinnulaus tölvunarfræðingur sem mættur var á vikulegan umræðufund í Salamanca.

Um þriðjungur spænskra kjósenda er enn óákveðinn en ljóst þykir að niðurstöður næstu kosninga komi ávallt til með að verða sögulegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×