Erlent

Ísraelar skili landinu fyrir 2016

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Riyad Mansour, fulltrúi Palestínu, kallar eftir stuðningi alþjóðasamfélagsins.
Riyad Mansour, fulltrúi Palestínu, kallar eftir stuðningi alþjóðasamfélagsins. vísir/ap
Fulltrúar arabaríkja ræddu í gær í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) samkomulag sem felur í sér að Ísraelar yfirgefi landtökusvæði á Vesturbakkanum innan þriggja ára. Öryggisráð SÞ kýs um tillöguna á næstu dögum.

„Það er ætlun palestínsku heimastjórnarinnar að grafa undan öryggi Ísraelsríkis og setja framtíð þess í óvissu,“ segir Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, í yfirlýsingu. Komi Öryggisráð SÞ ekki í veg fyrir að tillögurnar nái fram að ganga þá muni Ísrael gera það.

Riyad Mansour, sendiherra Palestínu hjá SÞ, segir að samningar megi ekki dragast á langinn mikið lengur því þá forherðist Ísraelar í afstöðu sinni. Hann kallar eftir stuðningi alþjóðasamfélagsins við að setja tímamörk á veru Ísraelsmanna á Vesturbakkanum.

Nái tillagan þeim níu atkvæðum, af fimmtán, sem hún þarf í Öryggisráðinu til að ná fram að ganga þykir líklegt að Bandaríkjamenn beiti neitunarvaldi sínu og felli hana þar með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×