Innlent

Íslenskur læknanemi: Þénar þrjár milljónir á mánuði fyrir blogg

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Kristján bloggar heiman frá sér og þénar vel.
Kristján bloggar heiman frá sér og þénar vel.
„Ég var með þrjár milljónir króna í tekjur fyrir janúarmánuð,“ segir bloggarinn og læknaneminn Kristján Gunnarsson. Hann heldur úti bloggsíðunni Authoritynutrition.com sem nýtur gríðarlegra vinsælda á netinu og fékk 2,3 milljónir heimsókna í síðasta mánuði. „Ég hef verið með yfir milljón krónur á mánuði í tekjur af síðunni í svolítinn tíma, en í janúar kom mikill kippur og heimsóknum fjölgaði. Ég held að ég nái að halda þessum fjölda áfram,“ útskýrir bloggarinn vinsæli.

Kristján heldur síðunni úti samhliða læknanámi sínu og skrifar allar greinarnar á síðunna sjálfur. „Það fara hátt í tíu klukkutímar í hverja grein og ég eyði fullt af tíma í að svara póstum og athugasemdum. Þetta er því alveg hellings vinna,“ segir Kristján.

Vísir hefur áður fjallað um góðan árangur Kristjáns í bloggheimum, en nú er hann kominn með nýja síðu og enn meiri árangur. „Ég vildi byrja að blogga með náminu til að verða mér úti um aukatekjur. Ég er nú hættur á námslánum og get stundað námið meðfram því að skrifa á síðuna, sem er frábært,“ segir hann.

„Ég fæ ákveðnar tekjur af auglýsingum sem koma inn á síðuna í gegnum Google. Ég fæ um 40 til 50 krónur í hvert sinn sem einhver smellir á auglýsingu á vefnum,“ útskýrir Kristján.

Kristján sem bloggar yfirleitt á ensku hefur nú einnig opnað íslenska síðu. „Já, ég þýði greinarnar yfir á íslensku og set inn á síðuna sem kallast Betri næring. Hún hefur fengið fínar móttökur hér á landi, ég er mjög ánægður með það.“

Hann segir erlenda aðila hafa borið víurnar í síðuna. „Ég hef fengið nokkur tilboð erlendis frá en ég hef ekki haft áhuga á að selja síðuna.“

Kristján er á þriðja ári í læknanáminu en er ekki viss hvað hann ætlar að gera að loknu námi. „Ég klára allavega námið en ég er ekkert búinn að ákveða neitt um framhaldið,“ segir bloggarinn sem gerir það svo sannarlega gott.


Tengdar fréttir

Læknanemi bloggar sig gegnum háskóla

Kristján Már Gunnarsson læknanemi kveðst fá 400 þúsund krónur á mánuði í tekjur með því að halda úti bloggi um heilsu, næringu og lífsstíl. Þetta geti hann samhliða þungu námi. Þetta sé frábært dæmi um nýsköpun í kreppunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×