Fótbolti

HM-Uppbótartíminn: Gott gengi Müller heldur áfram

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Leikmenn Rússlands fagna marki Kerzhakov.
Leikmenn Rússlands fagna marki Kerzhakov. Vísir/Getty
Fyrstu umferð Heimsmeistaramótsins lauk í gærkvöldi með jafntefli Suður-Kóreu og Rússlands. Vísir mun gera upp umferðina á léttum nótum í dag og hefur tekið saman ýmsa tölfræðimola úr fyrstu umferðinni.

Rússar náðu í fyrsta sinn að snúa taflinu við í leik á lokakeppni Heimsmeistaramótsins frá árinu 1982. Rússlandi hafði ellefu sinnum lent undir í leik á HM. Síðast þegar það gerðist voru Rússar að leika undir merkjum Sovétríkjanna í jafntefli gegn Skotlandi á HM á Spáni.

Eftir aðeins eina umferð eru komin þrjú sjálfsmörk í mótinu, fleiri en á öllu Heimsmeistaramótinu 2010. Metið er í hættu en það var sett í Frakklandi árið 1998 þar sem sex sjálfsmörk litu dagsins ljós. Sead Kolasinac, Bosníu, Noel Valladares, Hondúras og hinn brasilíski Marcelo voru þeir óheppnu í þetta skiptið.

Thomas Müller hefur skorað sex mörk í síðustu fjórum leikjum sínum á HM. Í leikjum sínum á lokamóti HM hefur hann tekið níu skot og skorað í þeim átta mörk. 

Íran hélt loksins hreinu.Vísir/Getty
Íran hélt í fyrsta sinn hreinu í lokakeppni HM í 0-0 jafntefli gegn Nígeríu. Íran hafði tapað alls 10 leikjum á lokakeppni HM fram að leiknum gegn Nígeríu.

Úrúgvæ mætti Kosta Ríka í fyrsta leik sínum á mótinu en tókst ekki að vinna. Úrúgvæ hefur ekki unnið fyrsta leik sinn á lokamóti HM frá árinu 1970 er þeir lögðu Ísrael að velli.

Spánn fékk á sig fimm mörk gegn Hollandi í fyrsta leik mótsins. Er það aðeins einu marki minna en þeir fengu á sig samanlagt á mótunum árin 2006 og 2010.

Thibaut Courtois, markvörður Belgíu, hefur enn ekki tapað leik í leik með landsliðinu. Markvörðurinn hefur tekið þátt í sautján leikjum, þar af hafa ellefu unnist og hefur hann haldið hreinu í tíu þeirra.


Tengdar fréttir

HM-Uppbótartíminn: Myndasyrpa

Vísir hefur tekið saman skemmtilega myndasyrpu frá fyrstu umferðinni á Heimsmeistaramótinu sem lauk í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×