Skoðun

Erum við í ofurveruleika?

Hulda Bjarnadóttir skrifar
Ég sat jafnréttisþing í liðinni viku þar sem tölur sýndu enn og aftur fram á mjög skökk hlutföll kynjanna í fréttatengdu efni ljósvakamiðla. Var ég hissa? Nei. Í fjögur ár benti FKA markvisst á skökk hlutföll í stjórnum og nú hefur félagið bent á það í tvö ár að konur eru aldrei meira en 20-30% viðmælenda í fréttatengdu efni ljósvakamiðlanna. Ég vonaðist þó til að útkoman hefði skánað örlítið. Í framhaldinu las ég stöðuuppfærslur og greinar eftir fólk úr ólíkum geirum og varð hugsi eina ferðina enn.

Stöldrum við

Þegar ég heyri setningar á borð við þær að miðlarnir „endurspegli bara raunveruleikann“, þá staldra ég við. Sjálf hef ég verið í fjölmiðlum frá unglingsárum og því fylgst með þróuninni og reglulega hef ég viðrað skoðanir mínar og rætt áhyggjur af þróuninni, eða stöðnuninni, við kollega og yfirmenn. Ég gef ekki lengur mikið fyrir yfirlýsingar um að það sé erfitt að fá konur í viðtöl. Af hverju? Jú, því ég veit betur, reyndi það á eigin skinni og held utan um viðmælendalista tæplega 500 kvenna úr atvinnulífinu sem gefa kost á sér í viðtöl eða sem fyrirlesarar á ráðstefnur ef eftir því er leitað. Aldrei stendur á þeim hópi kvenna. Hins vegar get ég fallist á þau rök að hlutfall karla sem eru við völd skapi skekkju að einhverju leyti.

Viljaleysi eða skortur á stefnu

En það hljóta að þurfa að koma til fjölbreyttari viðmælendur og nýjar nálganir. Mögulega þarf annars konar nálgun á konurnar, en það er þá einnig umhverfisins að læra og þróast í takt við þær mannverur sem byggja land. Og að eingöngu tuttugu prósent kvenna komist í fréttatengda umræðu? Er það viljaleysi eða skortur á stefnu? Það er í það minnsta ekki ásættanlegt. Það er víst til hugtak sem heitir ofurveruleiki (hyperreality) en þar einkennist nútíminn af ógreinilegum mörkum milli raunveruleika og blekkingar. Eftirmyndir raunveruleikans, svo sem í fjölmiðlum, beinum útsendingum og auglýsingum, verða raunverulegri en veruleikinn sjálfur. Legg til að við förum að koma okkur í raunverulegri veruleika. Að taka ákveðna stefnu í ákveðnum málum, breyta og standa við ákvörðunina er eina leiðin. Ef vilji er til staðar, þá er leiðin fær.




Skoðun

Sjá meira


×