Skoðun

Barnabrúðir í nútímanum

Kristín Friðsemd Sveinsdóttir skrifar
Í nánast öllum samfélögum er hjónaband stór áfangi í lífi fólks. Fyrir flest okkar hér á Vesturlöndum markar hjónaband ánægjuleg tímamót með tilheyrandi veisluhöldum þar sem við fögnum ástinni og okkur þykir það sjálfsagt að fá að velja hverjum við giftumst. Að hjónaband snúist um ást er þó alls ekki sjálfgefið og í mörgum samfélögum í heiminum eru margar praktískari ástæður sem liggja að baki hjónabanda. Skipulögð hjónabönd eru til að mynda enn algeng í ýmsum samfélögum en einnig viðgengst það enn í dag víðsvegar um heiminn að börn, í miklum meirihluta stúlkur, séu látin ganga í hjónaband langt áður en þau eru andlega og líkamlega tilbúin til þess.

Fyrir ári síðan vann ég fyrir úgönsk hjálparsamtök, Joy for Children Uganda, sem berjast gegn barnahjónaböndum þar í landi og áttaði mig þá á því hvað þetta er raunverulegt vandamál í Afríku og víðar. Samkvæmt tölfræði Unicef eru um 40% stúlkna í Úganda giftar fyrir 18 ára aldur og 10% giftar fyrir 15 ára aldur en tölurnar eru enn hærri í vesturhluta Úganda. Í Níger er vandamálið alvarlegast en þar eru 76% stúlkna giftar fyrir 18 ára aldur og 28% fyrir 15 ára aldur. Samkvæmt skýrslu Plan International frá árinu 2013, ganga 39 þúsund stúlkur undir 18 ára aldri í hjónaband daglega. Þetta eru sláandi tölur, þar sem ótímabært hjónaband getur haft alvarlegar afleiðingar, sérstaklega fyrir stúlkur. Þær eru settar í viðkvæma stöðu m.a. gagnvart heimilisofbeldi, HIV/alnæmi og lífshættulegum vandamálum tengdum ótímabærum barnsburði. Framtíðarmöguleikar þeirra takmarkast einnig að miklu leyti, þar sem oftast er ætlast til þess að þær hætti í skóla og helgi sig heimilisverkum og barneignum.

Þegar ég vann fyrir samtökin velti ég því oft fyrir mér hvers vegna í ósköpunum slík meðferð á börnum eigi sér enn stað. Það er erfitt fyrir okkur sem höfum alist upp á Íslandi að átta okkur á þessari hefð og hvaða heilvita fullorðnum karlmanni gæti þótt eftirsóknarvert að kvænast stúlku undir 15 ára aldri. Það er þó margt sem þarf að hafa í huga, meðal annars að það er ólíkt eftir samfélögum hverjir eru skilgreindir sem börn. Þannig geta ungar stúlkur til dæmis verið álitnar fullþroska konur um leið og þær byrja á kynþroskaskeiði. Einnig þarf að átta sig á því að hjónabönd hafa í mörgum samfélögum mikilvægt efnahagslegt, menningarlegt og pólitískt vægi.

Hefðin er mjög rótgróin í menningu margra samfélaga og oft er talið gott að tryggja ungum stúlkum gott eiginmannsefni snemma. Margir foreldrar telja sig vera að bæta kjör dætra sinna með þessu, en flestar þeirra stúlkna sem giftast ungar koma úr fátækum fjölskyldum með lágt menntunarstig. Fátækt spilar stóran þátt í hefðinni, en foreldrar sem berjast í bökkum við að fæða og klæða fjölskylduna og eiga jafnvel ekki tök á því að senda börnin sín í skóla, gætu talið það vera fyrir bestu að gifta dóttur sína inn í efnahagslega öruggari fjölskyldu. Það léttir á heimilishaldinu og fjölskyldan vonar að eiginmaðurinn muni sjá fyrir stúlkunni.

Í mörgum þróunarlöndum er í lögum að ekki megi gifta börn undir 18 ára aldri, en það virðist ekki duga til. Skortur á fræðslu veldur því að margir foreldrar vita ekki að þeir séu að brjóta lög þegar þeir gifta börnin sín, einnig gerir skortur á fæðingar- og giftingaskráningum það að verkum að erfitt getur verið að sanna á hvaða aldri stúlkurnar eru þegar þær eru giftar.

Aukin menntun og bætt efnahagskerfi í þróunarlöndum myndu vafalaust hjálpa mikið til þess að draga úr hefðinni, sem og fræðsla til þess að vekja almenning til vitundar um kynjajafnrétti og slæmar afleiðingar barnahjónabanda. Gott utanumhald um fæðinga- og giftingaskráningu er svo gríðarlega mikilvægt til þess að hægt sé með góðu móti að framfylgja lögunum.

Ef þið telijð það sjálfsögð mannréttindi að börn fái að njóta æsku sinnar og að stúlkur fái að velja hvenær og hverjum þær giftast, þá eru mörg flott samtök sem vinna að upprætingu barnahjónabanda. Ég mæli til dæmis með því að styrkja UN Women á Íslandi.

Þessi grein er hluti af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.




Skoðun

Sjá meira


×