Erlent

Díana tók á móti barni flóttakonu sem var nýkomin til Lesbos

Birgir Olgeirsson skrifar
Hér má sjá þegar móðirin var flutt í sjúkrabíl eftir að hafa fætt barnið í fjörunni á grísku eyjunni Lesbos í gær.
Hér má sjá þegar móðirin var flutt í sjúkrabíl eftir að hafa fætt barnið í fjörunni á grísku eyjunni Lesbos í gær. Vísir/AFP
Íslendingurinn Díana Cecilie Karlsdóttir var á meðal þeirra sem tóku á móti barni í grýttri fjöru á grísku eyjunni Lesbos í gær. Móðir barnsins er flóttamaður sem var nýkomin til lands á Lesbos þegar barnið kom í heiminn en hún var í hópi flóttamanna sem komu frá Tyrklandi í gúmmíbát.

Díana býr í Noregi en starfar sem sjálfboðaliði fyrir samtökin Because i can. Fjallað hefur verið um þessa fæðingu í norskum fjölmiðlum og rætt við Díönu. „Ég hef ekki enn þá áttað mig á þessu. Ég reyndi að fara afsíðis og ná mér aðeins eftir fæðinguna, en þurfti að halda áfram að hjálpa öðrum sem voru að koma í land. Móðirin var ótrúlega hugrökk,“ segir Díana við VG í Noregi.

Hún hafði verið við störf í fjörunni í sjö klukkustundir og var á leið heim til sín þegar hún heyrði einhver hrópa. Díana, sem starfar sem hljóðmaður í Noregi, þurfti á þeirri stundu að taka að sér störf ljósmóður.

„Þetta var annar dagurinn minn hér. Ég vonaði að þetta myndi taka smá tíma svo við gætum beðið eftir lækni, en höfuðið var þegar á leiðinni út.“

Hún sagði upplifunina hafa verið erfiða en rifjaði upp þegar hún sjálf fæddi barn í heiminn fyrir nokkrum árum. „Ég hafði hvorki þekkinguna eða búnaðinn til að klippa á naflastrenginn, þannig að ég beið í hálftíma hjá móðurinni og nýfædda drengnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×