Erlent

Þrír Ísraelar féllu og yfir tuttugu særðust í árásum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Rétttrúnaðargyðingar syrgja fallinn félaga sem lést þegar árásarmaður keyrði hann niður og stakk hann til bana.
Rétttrúnaðargyðingar syrgja fallinn félaga sem lést þegar árásarmaður keyrði hann niður og stakk hann til bana. Nordicphotos/AFP
Hrina árása skall á höfuðborg Ísraels, Jerúsalem, í gær. Þrír féllu og að minnsta kosti tuttugu særðust. Frá þessu greindi ísraelska lögreglan í gær.

Tveir farþegar voru myrtir þegar jafn margir árásarmenn réðust inn í strætisvagn í borginni og skutu menn og stungu áður en þeir féllu fyrir hendi lögreglu.

Þá féll annar Ísraeli eftir að hafa verið keyrður niður af Palestínumanni og stunginn í hverfi rétttrúnaðargyðinga í borginni. Að auki lést einn Palestínumaður í borginni Betlehem í gær eftir átök við lögreglu.

Lögregla í Ísrael sagði í tilkynningu sinni í gær að tugir Ísraela lægju í valnum eftir mikla öldu stunguárása Palestínumanna undanfarnar vikur. Þá segir í tilkynningunni að álíka margir árásarmenn hafi fallið og sautján almennir palestínskir borgarar hið minnsta.

„Ísraelsríki mun ná sér niðri á morðingjunum. Þeim sem reyna að myrða og öllum þeim sem leggja þeim lið,“ sagði Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, er hann lofaði hertum áherslum í öryggismálum á ísraelska þinginu í gærdag.

„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma á friði,“ sagði forsætisráðherrann.

Mahmoud Abbas, forseti Palest­ínu, kennir Ísraelsmönnum hins vegar um átökin. Í gær sagði Abbas ísraelsk stjórnvöld og ísraelska landtökumenn eiga sökina. Netanjahú svaraði Abbas þá fullum hálsi og bað hann um að „hætta að ljúga“.

En á meðan ráðamenn kepptust við að kenna hvorir öðrum um og almenningur syrgði tóku Hamas-samtökin fréttum gærdagsins fagnandi. „Við lofum hetjudáðirnar í Jerúsalem og tökum ofan fyrir hetjunum sem bera ábyrgð á þeim,“ sagði í tilkynningu samtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×