Erlent

Umdeilt netfrumvarp samþykkt af Bandaríkjaþingi

Bjarki Ármannsson skrifar
Flutningsmenn CISA segjast þó telja að með því að opna fyrir upplýsingaflæði gæti Bandaríkjastjórn unnið með fyrirtækjum til þess að styrkja varnir þeirra gegn tölvuþrjótum.
Flutningsmenn CISA segjast þó telja að með því að opna fyrir upplýsingaflæði gæti Bandaríkjastjórn unnið með fyrirtækjum til þess að styrkja varnir þeirra gegn tölvuþrjótum. Vísir/AFP
Bandaríkjaþing samþykkti í gær umdeilt frumvarp sem miðar að því að tryggja netöryggi með því að leyfa Bandaríkjastjórn og einkafyrirtækjum að skiptast á upplýsingum um tölvuárásir. Gagnrýnendur frumvarpsins segja það ekki tryggja öryggi upplýsinga hins almenna netverja.

Frumvarpið ber ensku skammstöfunina CISA. Það var samþykkt í öldungadeild þingsins með 74 atkvæðum gegn 21.

Það hefur frá upphafi notið stuðnings Hvíta hússins en Heimavarnarstofnun Bandaríkjanna hefur mælt gegn því og sagði í ágúst síðastliðnum að það gæti þurrkað út mikilvægar hömlur á því hver geti skoðað einkaupplýsingar fólks.

Flutningsmenn CISA segjast þó telja að með því að opna fyrir upplýsingaflæði gæti Bandaríkjastjórn unnið með fyrirtækjum til þess að styrkja varnir þeirra gegn tölvuþrjótum. Tími sé til kominn í ljósi áberandi tölvuárása á borð við þá sem gerð var á tölvukerfi bandarískra ríkisstarfsmanna í júní síðastliðnum.

Þó öldungadeild hafi samþykkt CISA-frumvarpið í gær á eftir að samrýma það þeirri útgáfu frumvarpsins sem fulltrúadeild þingsins samþykkti í vor áður en Barack Obama Bandaríkjaforseti getur gert það að lögum.​



Fleiri fréttir

Sjá meira


×