Dagur Kári Pétursson hlaut í kvöld kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir myndina Fúsa. Benedikt Erlingsson afhenti Degi Kára verðlaunin en hann hlaut fyrstur Íslendinga kvikmyndaverðlaunin í fyrra fyrir myndina Hross í oss.
Dagur Kári fær að launum 7,5 milljónir íslenskra króna að launum fyrir að hljóta þessi verðlaun. Hann sagði verðlaunaféð hafa komið á besta tíma því hann skuldi svo mikið skatt.
Eftirfarandi hlutu verðlaun Norðurlandaráðs í kvöld:
Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs
Jon Fosse hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir verkið Trilogien:Andvake. Olavs draumar. Kveldsvævd.
Í rökstuðningi dómnefndar sagði m.a.:
„Verkið sem hlýtur bókmenntaverðlaunin að þessu sinni er óvenju gott dæmi um formræna nýsköpun og umfjöllunarefni sem snertir lesandann þvert á tíma og rúm. Hér er á ferð tímalaus ástarsaga; prósi sem hefur greinilega ljóðræna eiginleika og jafnframt meðvitaða og gáskafulla afstöðu til mannkynssögunnar.“
Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs
Svante Henryson hreppti tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs og hafði dómnefndin m.a. þetta að segja:
„Hinn sænski Svante Henryson, sellóleikari, bassaleikari og tónskáld, hefur sýnt einstaka sköpunargáfu og þróað afburðatækni á sérsviðum sínum á viðburðaríkum tónlistarferli.“
Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs
Svíinn Jakob Wegelius hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókina Mördarens apa.
Í rökstuðningi dómnefndar sagði m.a.: „Með Mördarens apa blæs Jakob Wegelius nýju lífi í hið sígilda ævintýraform. Lesandinn slæst í för með górillunni Sallý Jones um sóðalegt hafnarhverfi Lissabon-borgar … Listilega gerðar myndskreytingar höfundar og póstkortin, þar sem ævintýrum Sallýjar eru gerð skil, innsigla heildræna upplifun lesandans.“
Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs
Leikstjórinn og handritshöfundurinn Dagur Kári og framleiðendurnir Baltasar Kormákur og Agnes Johansen hlutu kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs fyrirFúsa.
Í rökstuðningi dómnefndar sagði:
„Myndin er fáguð, stílhrein og full af myndrænni hugmyndaauðgi og fjallar um mikilvægi þess að varðveita gæsku sína og sakleysi í óárennilegum heimi. Fúsieftir Dag Kára er grípandi og listilega upp byggð kvikmynd sem bregður upp trúverðugri mynd af blíðum risa og hnitmiðuðum lýsingum á konunum sem standa honum næst.“
Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs
Hákun Djurhuus, framkvæmdastjóri færeyska orkufyrirtækisins SEV, tók við náttúru- og umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs fyrir nýskapandi starf að metnaðarfullum markmiðum um græna raforku í Færeyjum.
Verðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsund dönskum krónum. Þau voru afhent í Hörpu í Reykjavík í tengslum við þing Norðurlandaráðs.

