Erlent

Gamall mafíósi sýknaður af aðild að frægu ráni

Samúel Karl Ólason skrifar
Vincent Asaro með lögfræðingum sínum eftir að hann var látinn laus.
Vincent Asaro með lögfræðingum sínum eftir að hann var látinn laus. Vísir/Getty
Hinn áttatíu ára gamli Vincent Asaro var í dag sýknaður af aðild að mjög frægu ráni í New York árið 1978. „Lufthansa ránið“ svokallaða veitti höfundum kvikmyndarinnar Goodfellas innblástur. Asaro var þar að auki sýknaður af morðákæru, fjárkúgun og öðrum glæpum.

Hann var handtekinn árið 2013 og er meðlimur Bonanno fjölskyldunnar sem var áhrifamikil í New York á árum áður.

Við réttarhöldin báru fjölmargir fyrrverandi og eldri mafíósar vitni gegn Asaro. Vörn hans gekk að miklu leyti út á að gera lítið úr framburði þeirra. Þeir væru atvinnuglæpamenn og högnuðust á því að vitna gegn Asaro, með styttri fangelsisdómum og slíkum samningum við yfirvöld.

Þar til Asaro var handtekinn hafði einungis einn maður verið kærður fyrir aðild að ráninu og sá var starfsmaður flugfélagsins Lufthansa. Í ráninu stálu sex vopnaðir menn peningum og skartgripum að virði sex milljóna dala úr vörugeymslu flugfélagsins.

Þegar Asaro kom úr dómshúsinu sagðist hann ætla beint heim til fjölskyldu sinnar og borða góðan mat. Þar sem hann hefði nánast bara borðað samlokur síðustu tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×