Erlent

Þreifingar um stjórn hefjast í Búrma

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Fréttirnar lesnar á götu í Jangon, höfuðborg Búrma.
Fréttirnar lesnar á götu í Jangon, höfuðborg Búrma. Nordicphotos/AFP
U Thein Sein, forseti í Búrma, óskaði í gær Lýðræðisfylkingunni, stjórnarandstöðuflokki Nóbelsverðlaunahafans Aung San Suu Kyi, til hamingju með árangur hennar í þingkosningunum um helgina.

Talningu atkvæða er þó engan veginn lokið, en Suu Kyi og félagar hennar hafa til þessa fengið um 90 prósent allra þingsæta í þeim kjördæmum sem búið er að telja í.

Þar á meðal er Suu Kyi búin að tryggja sér þingsæti áfram í sínu kjördæmi.

Sjálf skrifaði Suu Kyi bréf til Thein Sein á þriðjudaginn, þar sem hún bauð honum upp á viðræður um framhaldið.

Hamingjuóskir hans lofa góðu um að herinn taki vel í samstarf við Suu Kyi.

Kosningafyrirkomulagið er þannig að herinn fær að lágmarki 25 prósent þingsæta og hefur því neitunarvald um allar breytingar á stjórnarskránni.

Yfirburðasigur Lýðræðisfylkingarinnar verður hins vegar til þess að herinn kemst í minnihluta á þingi, en hann hefur verið einráður um stjórn landsins áratugum saman.

Samkvæmt stjórnarskrá landsins getur Suu Kyi ekki orðið forseti, en hún segir það ekki koma í veg fyrir að hún muni taka allar ákvarðanir þótt einhver annar verði í forsetaembættinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×