Erlent

Ærið verkefni bíður Hollande

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Búist er við því að Hollande þrýsti á Obama og stuðning Bandaríkjanna í baráttuni við Íslamska ríkið.
Búist er við því að Hollande þrýsti á Obama og stuðning Bandaríkjanna í baráttuni við Íslamska ríkið. vísir/Ap

Barack Obama Bandaríkjaforseti og Francois Hollande forseti Frakklands funda nú í Hvíta Húsinu í Washington. Leiðtogarnir hafa ekki fundað síðan hryðjuverkamenn réðu 130 manns bana í París á dögunum.

Fjölmiðlaspekingar vestanhafs gera sterklega ráð fyrir því að samhæfðar aðgerðir ríkjanna tveggja gegn meðlimum Íslamska ríkisins verði efst á baugi á fundinum í dag. Þó er ekki búist við því að niðurstöður fundarins verði aðrar en táknrænar.

„Ég vil ekki blása upp væntingarnar fyrir fundinum en ég vil heldur ekki gera lítið úr miklvægi þess að sýna samstöðu og auka samvinnu,“ sagði fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins í gær.

Hollande ferðast nú sem eldibrandur um heiminn og reynir að sannfæra leiðtoga hins vestræna heims um að styðja sig í komandi átökum Frakka við Íslamska ríkið.

Í kjölfar heimsóknar sinnar til Bandaríkjanna mun hann funda með Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Væntanlega heimsókn Hollande til Rússlands er sögð fara mjög illa í bandarísku gestgjafa hans.

Sjá einnig: „Atburðir dagsins munu hafa mjög alvarlegar afleiðingar“

Bandaríkjamenn og Rússar hafa eldað grátt silfur á síðustu vikum vegna mismunandi áherslna ríkjanna tveggja í baráttunni gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi. 

Obama lýsti því þannig yfir í heimsókn sinni til Malasíu á sunnudag að hann efaðist um heilindi Rússa í baráttunni við ISIS. 

„Þetta snýst í raun um hvort Rússar geti ráðist í þær hagræðingar sem nauðsynlegar eru svo þeir geti reynst okkur öflugur bandamaður,“ sagði Obama á sunnudag. 

Talið er ólíklegt að Bandaríkin og Rússland geti tekið höndum saman í þeirri baráttu, eins og Hollande gerir sér grillur um, vegna andstöðu Bandaríkjamanna við stjórn Assads Sýrlandsforseta – sem Rússar vilja ómögulega hrófla við. Frakkar eru á sömu blaðsíðu og Bandaríkjamenn í þeim efnum og undirstrikaði Hollande það í máli sínu í gær.

„Farsælasta niðurstaðan væri sú að mynda sameinaða stjórn í Sýrlandi og gefa skýr skilaboð um að Assad geti verið framtíð þjóðarinnar sem hann hefur aðstoðað við að slátra,“ sagði Frakklandsforseti.

Ljóst er að Hollande þarf að gefa eftir í þeirri afstöðu sinni vilji hann sannfæra Rússa um að gangast til liðs við sig en sú kúvending myndi fara illa í Bandaríkjamenn. Frakklandsforseta bíður því ærið verkefni á næstu dögum vilji hann sannfæra þessa fornu fjendur um að róa í takt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×