Erlent

Finna má norðurljós á Mars

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mars er vinsælt rannsóknarviðfangsefni þessa stundina.
Mars er vinsælt rannsóknarviðfangsefni þessa stundina. Vísir/Getty
Finna má segulljós sambærileg norðurljósum á Mars, breytilegt andrúmsloft og ljóst er að að sólstormar hafa haft mikil áhrif á sögu plánetunnar rauðu. Þetta kemur fram í nýjum rannsóknum NASA sem kynntar voru í dag.

Rannsóknarhópur innan NASA sem nefnist Mars Athmosphere and Volatile Evolution hefur legið yfir gögnum frá MAVEN-geimfarinu sem komst á braut um Mars þann 22. september 2014. Hefur geimfarið síðan þá safnað saman gögnum um andrúmsloft Mars.

Aðeins eru eftir örður að segulsviðinu sem einu sinni umlauk Mars og verndaði plánetuna fyrir sólargeislum líkt og segulsvið Jarðar gerir á hverjum einasta degi. Það gerir það að verkum að stór hluti Mars verður fyrir sólargeislum sem skapa segulljós.

Einn af meðlimum rannsóknarhópsins grínaðist einmitt með það að ef einhver yrði skilinn eftir á Mars líkt og Matt Damon í The Martian myndi sá hinn sami í það minnsta geta notið ljósasýningarinnar sem er keimlík þeim norðurljósum sem við þekkjum hér á norðurhjara veraldar.

Gögn frá MAVEN gefa einnig til kynna hvernig andrúmsloftið á Mars varð jafn þurrt og raun ber vitni í dag. Í árdaga Mars var andrúmsloftið á plánetunni töluvert hlýrra og rakara. Án segulsviðsins er yfirborð Mars sólvindbarið.

Líklegt þykir að þessir sólstormar hafi leitt til þess að segulsviðið hafi smám saman drabbast niður og því hafi andrúmsloftið og yfirborð Mars orðið berskjaldað.  Það hafi gert það að verkum að andrúmsloft Mars er jafn þurrt og það er í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×