Erlent

Hetjan sem varð að skúrki

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnisvarðar um Charles Josep Gliniewicz voru víða sjáanlegir í Fox Lake.
Minnisvarðar um Charles Josep Gliniewicz voru víða sjáanlegir í Fox Lake. Vísir/Getty
Lögregluþjónninn Charles Josep Gliniewicz fannst látinn í Fox Lake í Bandaríkjunum í byrjun september í fyrra og fór af stað umfangsmikil rannsókn á því sem að talið var að væri morð. ­Hann hafði verið lögregluþjónn í 30 ár og var einstaklega vinsæll í starfi sínu.

Skömmu áður en hann fannst látinn hafði hann sagt í talstöð sína að hann væri á hlaupum á eftir þremur mönnum. Hann fannst með skotsár og skammbyssa hans lá þar nærri.

Gífurlega umfangsmikil rannsókn og leit var sett á laggirnar og fóru þungvopnaðir lögregluþjónar hús úr húsi í öllum bænum í leit að mönnunum þremur. Gliniewicz var jarðsunginn sem hetja og mættu hundruð í jarðaför hans.

Sjá einnig: Umfangsmikil leit að morðingjum lögreglumanns

Nú hefur komið í ljós að hann framdi sjálfsmorð og framkvæmdi það og skipulagði, svo að rannsakendur myndu telja að um morð hefði verið að ræða. Þar að auki hafði hann dregið að sér fé um árabil frá unglingastarfi sem hann hafði stýrt.

Charles Josep Gliniewicz.Vísir/Getty
Samkvæmt AP fréttaveitunni mátti sjá opinbera starfsmenn Fox Lake ganga um bæinn í gær og taka niður borða sem á stóð G.I. Joe. Borðarnir höfðu verið settir upp til stuðnings Gliniewicz eftir að hann fannst látinn, en hann þótti mjög vinsæll í bænum. Einum borðanum hafði verið breytt á þann veg að á honum stóð: G.I. Joke.

Peningunum sem Gliniewicz hafði dregið að sér eyddi hann í húsnæðislán, ferðalög, klámsíður og í lán til vina sinna. Hann er talinn hafa framið sjálfsmorð vegna þess að fjárdrátturinn var við það að líta dagsins ljós.

Nafn Gliniewicz hefur verið fjarlægt af heimasíðu samtaka sem halda utan um fjölda lögreglumanna sem láta lífið við skyldustörf. Þar að auki hafa samtök sem styðja fjölskyldur slíkra lögregluþjóna farið fram á að fjölskylda hans skili um tveggja milljóna styrk sem hún fékk.


Tengdar fréttir

Umfangsmikil leit að morðingjum lögreglumanns

Þrír menn sem grunaðir eru um að hafa orðið lögreglumanni að bana skammt norðan við Chicago er nú á flótta en skólum hefur verið lokað og íbúum sagt að halda kyrru heimafyrir meðan aðgerðir standa yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×