Erlent

Mega rækta marijúana til einkaneyslu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fólk safnaðist saman við hæstarétt Mexíkó og fékk sér jónu til að fagna úrskurðinum.
Fólk safnaðist saman við hæstarétt Mexíkó og fékk sér jónu til að fagna úrskurðinum. vísir/epa
Hæstiréttur Mexíkó hefur úrskurðað að það gangi gegn stjórnarskrá landsins að banna fólki að rækta marijúanaplöntur til einkaneyslu.

Málið er einstakt en fjórir einstaklingar úr samtökum sem berjast fyrir því að ræktun og einkaneysla marijúana verði leyfð mega nú rækta sínar eigin plöntur og reykja efnið úr þeim.

Úrskurðurinn tekur aðeins til þeirra fjögurra sem höfðuðu málið en að mati sérfræðinga er um stórt skref að ræða í landi sem hefur löngum glímt við hryllilega ofbeldisglæpi og ýmis önnur samfélagsleg vandamál tengd fíkniefnainn-og útflutningi.

Ýmsir telja að úrskurðurinn leiði til þess að marijúana verði lögleitt í landinu en ólöglegt er að selja efnið. Frá árinu 2009 hefur hins vegar mátt vera með allt að fimm grömm af marijúana á sér.

Mexíkóska þjóðin er klofin í afstöðu sinni til lögleiðingu fíkniefna og hefur til að mynda forseti landsins, Enrique Peña Nieto, lýst sig algjörlega andsnúinn því að einhverju verði breytt í fíkniefnalöggjöfinni.

 

Baráttan fyrir lögleiðingu er því rétt að byrja í Mexíkó en ýmsir fögnuðu úrskurðinum í vikunni með því að kveikja sér í jónu fyrir framan hæstarétt landsins.


Tengdar fréttir

Kannabis lögleitt í tveimur ríkjum Bandaríkjanna

Enn á eftir að telja atkvæði í Alaska en líklegt þykir að lögleiðing verði samþykkt þar. Lögleiðingu var hafnað í Flórída þrátt fyrir að 57 prósent kjósenda sögðu já.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×