Fótbolti

Þjálfar krakka í hættulegu fátækrahverfi: Maður er alltaf hræddur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Krakkar í Ciudad Bolívar fagna eftir leik sem þau spiluðu gegn nágrannaliði. Bjarki Már er til hægri.
Krakkar í Ciudad Bolívar fagna eftir leik sem þau spiluðu gegn nágrannaliði. Bjarki Már er til hægri. vísir/getty/eyjólfur
Bjarki Már Ólafsson, 22 ára gamall Seltirningur, þjálfar krakka í einu allra hættulegasta fátækrahverfi heims í Kólumbíu.

Þessi fyrrverandi vonarstjarna Gróttu, sem þurfti að leggja skóna á hilluna vegna hjartagalla langt fyrir aldur fram, þjálfaði krakka hjá uppeldisfélagi sínu undanfarin tvö ár.

Hann vildi fá aðra sýn á lífið og sótti um verkefnið hjá skrifstofu Alþjóðlegra ungmennaskipta, AUS.

„Ég hafði samband við AUS-skrifstofuna á Íslandi og sagði að ég vildi komast út í fátækrahverfi hvar sem er í heiminum og vildi fá að þjálfa fótbolta svo ég fengi samanburðinn,“ segir Bjarki Már í innslagi í Íslandi í dag.

Alltaf hræddur

Honum varð svo sannarlega að ósk sinni því hann fékk þjálfarastarf í Ciudad Bolívar í höfuðborg Kólumbíu, Bogotá, en það er eitt alræmdasta fátækra- og glæpahverfi heims.

„Þetta er eitt stærsta fátækrahverfi heims. Þarna eru eiturlyfjasalar á hverju götuhorninu og gengi starfrækt,“ segir Bjarki Már.

„Ég ætla ekki að þykjast vera ekki hræddur. Þegar maður ferðast á morgnanna setur maður á sig öryggisbeltið. Maður er alltaf hræddur,“ segir hann.

Kenna góð gildi

Markmiðið með verkefninu sem Bjarki Már er hluti af í Bogotá er að halda börnum af götunni og fjarri glæpum. Einnig er stuðlað að því að bæta lífsgleði barnanna.

„Við kennum þeim gildi í fótboltanum sem þau geta tekið með sér út í lífið. Gildi síðustu viku var samkennd þar sem í hvert skipti sem einhver datt, meiddi sig eða klúðraði færi átti næsti maður að rétta honum hjálparhönd eða peppa hann óháð því hvort þetta væri samherji eða andstæðingur,“ segir Bjarki Már.

Í guðatölu

Hann segist afar vinsæll hjá krökkunum þar sem hann sé auðvitað að stuðla að betri framtíð barnanna. Munurinn á þakklætinu fyrir hans störf í Bogotá miðað við hér heima er töluverður.

„Maður er í guðatölu fyrir að leyfa börnunum að spila fótbolta. Heima fær maður símtal frá foreldrum sem kvarta yfir liðsvali eða þess háttar,“ segir Bjarki Már.

Öryggi ekki sjálfsagður hlutur

Bjarki er búinn að vera í viku úti í Kólumbíu en verkefnið tekur þrjá mánuði. Muninn á lífsgæðunum hér heima og úti segir hann mikinn.

„Á þessari einu viku sé ég strax hvað við heima tökum öryggi sem sjálfsögðum hlut. Hér má ég ekki fara út eftir klukkan sex,“ segir hann.

„Ég bý í miklu fátækrahverfi og ég sé út um gluggan sírenur og vesen. Maður tekur örygginu ekki sem sjálfsögðum hlut. Krakkar á Íslandi búa við mikil forréttindi og það sér maður núna,“ segir Bjarki Már Ólafsson.

Innslagið má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×