Erlent

Áhersla á trú í uppeldi ýtir undir kaldlyndi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Börn í kirkju.
Börn í kirkju. Nordicphotos/AFP
Trúaruppeldi gerir börn kaldlyndari og refsiglaðari en uppeldi á heimilum trúlausra. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar, sem birtar hafa verið í vísindatímaritinu Current Biology.

Vísindamenn úr sjö háskólum gerðu þessa rannsókn á nærri 1.200 börnum víðs vegar um heiminn. Nærri fjórðungur barnanna var úr kristnum fjölskyldum, 43 prósent úr fjölskyldum múslima og 27,8 prósent úr fjölskyldum trúlausra.

„Niðurstöður okkar,“ segir í greininni, „ganga þvert á þá almennu og viðteknu hugmynd að börn frá heimilum trúaðra séu meiri mannvinir og sýni öðrum góðvild.“

Enn fremur ganga niðurstöðurnar þvert gegn þeirri hugmynd að trú sé nauðsynleg fyrir þróun siðferðiskenndar: „Þetta styður þá hugmynd að undanhald trúarinnar í siðferðilegri umræðu dragi ekki úr manngæsku – satt að segja hefur það þveröfug áhrif.“

Þá sýna niðurstöðurnar að trúhneigð ýti undir refsigleði barna. Enn fremur virðast börn, sem koma frá heimilum trúaðra, vera dómharðari gagnvart öðrum.

Frá þessu er skýrt á vefsíðu breska dagblaðsins The Guardian. Þar er bent á að meirihluti íbúa jarðarinnar standi í þeirri trú, að trú á guð sé nauðsynleg fyrir siðferðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×