Skoðun

Öryggisdagar Strætó og VÍS

Jóhannes Rúnarsson skrifar
Öryggisdagar Strætó og VÍS standa nú yfir, en þeir eru nú haldnir í sjöunda sinn. Markmið þeirra er að auka forvarnir í umferðinni með áherslu á fækkun slysa á fólki, minnka tjón, auka öryggi bílstjóra og öryggi í umferðinni almennt.

Öryggisdagar hafa skilað góðum árangri síðustu ár og til að mynda fækkaði tjónum og slysum um 40% á milli áranna 2013 og 2014. Strætó og VÍS halda nákvæma skráningu á slysum og tjónum og eru orsakir atvika greind í hverju tilviki fyrir sig, svo megi læra af þeim og bæta öryggið.

Öryggisdagar standa yfir í fimm vikur. Fyrst voru strengir stilltir saman innanhúss hjá Strætó, farið var yfir öryggisreglur o.fl. Síðan var átakið gert sýnilegt út á við með skilaboðum til fólks í umferðinni um öryggi utan á vögnunum og góðum ábendingum til farþega okkar innan í vögnunum. Skemmtileg myndbönd sem Steindi Jr. leikur í hafa birst á samskiptamiðlum og slegið í gegn. Í myndböndunum fer Steindi á gamansaman hátt yfir það hversu mikilvægt sé að passa upp á öryggið í vögnunum og hvet ég alla til þess að heimsækja Facebook-síðu Strætó og horfa á myndböndin.

Sem dæmi um það hvernig farþegar geta tekið þátt í að bæta öryggi í umferðinni er að nýta eingöngu stoppistöðvarnar, en óska ekki eftir því að vagnstjóri hleypi þeim í og úr vagninum á milli þeirra. Þá getur það skapað hættu ef farþegar sem orðnir eru of seinir hlaupa á eftir vagninum og reyna að stöðva hann. Mun öruggara er að bíða frekar eftir næsta vagni.

Öryggismál eru efst í huga okkar hjá Strætó á hverjum degi. Með Öryggisdögum viljum við fá starfsmenn og farþega Strætó, ásamt almenningi öllum, til þess að huga betur að öryggismálum. Með samstilltu átaki, árvekni og varkárni, getum við öll náð enn betri árangri íöryggismálum. Höldum áfram á sömu braut og fækkum slysum og tjónum enn frekar.




Skoðun

Sjá meira


×