Erlent

Ofbeldisaldan bitnar á börnum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Flóttafólk frá Búrúndí komið til Tansaníu.
Flóttafólk frá Búrúndí komið til Tansaníu. Nordicphotos/AFP
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur áhyggjur af börnum í Búrúndí, þar sem ofbeldisalda hefur gengið yfir undanfarið.

Nú þegar hefur ofbeldið kostað sautján börn lífið frá því ólgan hófst, en það gerðist í apríl síðastliðnum. Þá hefur brotum gegn réttindum barna fjölgað jafnt og þétt þessa mánuði.

Mikill meirihluti íbúanna býr við mikla fátækt, og hefur staða þeirra versnað enn vegna ólgunnar og hækkandi verðlags vegna hennar.

„Hættuástandið í Búrúndí má ekki bitna á börnunum,“ segir Leila Gharagozloo-Pakkala, en hún er svæðisstjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í austan- og sunnanverðri Afríku.

Sprengjum hefur verið varpað á skóla og vitað er um hundrað börn sem hafa verið tekin til fanga og sett í fangelsi með fullorðnum.

Meira en 200 þúsund manns hafa flúið land til nágrannaríkjanna Rúanda, Tansaníu og Úganda.

Varað hefur verið við hættu á þjóðarmorði í Búrúndi, með svipuðum hætti og þjóðarmorðið í nágrannaríkinu Rúanda fyrir tveimur áratugum.

Í báðum þessum löndum eru íbúarnir flestir kristinnar trúar, en skiptast í tvo meginþjóðflokka, húta og tútsa, sem lengi hafa eldað grátt silfur.

Miklar breytingar hafa hins vegar orðið á stjórnmálum og stofnunum síðan hildarleikurinn í Rúanda var háður. Séð hefur verið til þess að báðir þjóðflokkarnir eigi álíka stórt hlutfall fulltrúa í her og stofnunum, þannig að hvorugur eigi vísa yfirburði lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×