Skoðun

Hjúkrun bjargar mannslífum

Ólafur G. Skúlason skrifar
Við stöndum nú á krossgötum. Hvert skal stefna? Eigum við að halda áfram á sömu braut eða eigum við að breyta til? Getum við haldið áfram við óbreyttar aðstæður?

Þessum spurningum velta hjúkrunarfræðingar fyrir sér í dag í kjölfar ákæru á hendur samstarfskonu þeirra sem sökuð er um mistök í starfi sem leiddu til dauða skjólstæðings í hennar umsjá.

Hjúkrunarfræðingar vinna erfitt starf við erfiðar aðstæður. Skortur á hjúkrunarfræðingum gerir það að verkum að þeir sem eru við störf sinna allt of mörgum sjúklingum í einu. Þeir eiga erfitt með að halda yfirsýn og tryggja að allir fái þá meðferð og eftirlit sem þeir þurfa á að halda. Ofan á manneklu bætist svo við að álagið er of mikið þar sem sjúklingar verða sífellt veikari og öldruðum sem þarfnast hjúkrunar fer ört fjölgandi. Við bætist að starfsumhverfið er ófullnægjandi þar sem húsnæðið er úr sér gengið og hentar ekki nútíma heilbrigðisþjónustu.

Hjúkrunarfræðingar sinna sínu starfi af alúð og umhyggju og hafa nýjustu þekkingu að leiðarljósi. Þeir hlaupa sífellt hraðar, vinna meira og eru þar af leiðandi þreyttari og verr í stakk búnir til að tryggja öryggi sjúklinga.

Það þarf að fjölga hjúkrunarfræðingum til að tryggja öryggi sjúklinga. Það ætti að vera forgangsverkefni stjórnvalda og krafa sjúklingasamtaka að hjúkrunarfræðingum verði fjölgað. Með góðri mönnun hjúkrunarfræðinga dregur úr fylgikvillum sjúkrahúslegu, sjúklingum farnast betur, útskrifast fyrr og dánartíðni lækkar. Það kemur því betur út fyrir sjúklinga og er kostnaðarlega hagkvæmt fyrir ríkissjóð. Þetta liggur beint við.

Til að fjölga hjúkrunarfræðingum þarf að gera breytingar. Kjör þeirra þurfa að endurspegla ábyrgðina, starfsumhverfið þarf að bæta og gera þarf háskólunum og heilbrigðisstofnunum kleift að taka við fleiri nemendum í hjúkrunarfræði.

Slæmar afleiðingar

Hjúkrunarfræðingar bíða nú eftir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Verði niðurstaðan sú að hjúkrunarfræðingurinn verði sakfelldur óttast ég að það muni hafa slæmar afleiðingar á heilbrigðiskerfið. Hver vill vinna við aðstæður sem eru þannig að þrátt fyrir að þú gerir þitt allra besta og samkvæmt nýjustu þekkingu ertu líklegri til að gera mistök vegna álags og manneklu? Margir hjúkrunarfræðingar segjast munu hugsa sinn gang og jafnvel íhuga að yfirgefa fagið en við megum ekki við því að missa einn einasta hjúkrunarfræðing.

Það verður að skapa starfsumhverfi fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem ýtir undir það að árangur náist af starfi þess. Það þarf að manna vel og tryggja að starfsfólkið fái þá hvíld sem nauðsynleg er til að sinna flóknum og erilsömum störfum. Hvíldartími heilbrigðisstarfsmanna á að vera ófrá­víkjan­leg regla og líta verður á hann sem heilagan. Þeir vinna með líf annarra í höndunum og ég tel það vera kröfu hvers einasta þegns þessa lands að þegar þeir þurfa á hjúkrunarfræðingi eða öðrum heilbrigðisstarfsmanni að halda sé viðkomandi óþreyttur, til staðar og í þeim aðstæðum að geta veitt bestu mögulega heilbrigðisþjónustu líkt og þeim er skylt að gera samkvæmt lögum.

Það er stjórnvalda að tryggja hér öflugt heilbrigðiskerfi og skapa heilbrigðisstarfsfólki vinnuaðstæður sem stuðla að öryggi sjúklinga og starfsmanna. Forgangsröðum fjármálum í heilbrigðiskerfið og drögum úr líkunum á því að mistök eigi sér stað. Tryggjum að hjúkrunarfræðingar velji að halda leið sinni í hjúkrun áfram. Fjárfestum í hjúkrun – hjúkrun bjargar mannslífum.




Skoðun

Sjá meira


×