Skoðun

Það sem þarf til að COP21 ráðstefnan heppnist

Hryðjuverkin í París koma ekki í veg fyrir loftslagsráðstefnuna sem hefst í dag. 150 þjóðarleiðtogar eða þjóðhöfðingjar hafa staðfest komu sína og gert er ráð fyrir 40.000 þátttakendum. Þessi feiknarlegi áhugi skýrist af því sem við er að etja: að takmarka hækkun hita í heiminum við 2 C° svo ekki komi til óafturkræfra loftslagsbreytinga. Unnt er að ná samkomulagi því fáir draga lengur loftslagsvísindin í efa. Októbermánuður síðastliðinn var sá heitasti frá upphafi mælinga. Þótt öllum beri saman um markmiðin er niðurstaðan ekki sjálfgefin. Frakkar eru í forsæti ráðstefnunnar og verða að sætta sjónarmið 195 þátttökuþjóða, bæði á venjulegum samningafundum og með nýrri nálgun. Eins og gengur á slíkum ráðstefnum leitar forysturíkið eftir bindandi samkomulagi, algildu en löguðu að þróunarstigi landa, bæði til að draga úr losun til framtíðar og kljást við núverandi vanda. Samkomulaginu fylgir fjármögnun til þróunarlanda sem nemur 100 milljörðum USD frá 2020 (62 milljörðum 2014). Frakkar tóku upp þá nýbreytni að óska eftir að þátttökuríkin gerðu fyrir fram grein fyrir framlagi sínu. Það hafa nú 169 ríki gert, sem samtals standa fyrir 91% af losun gróðurhúsalofttegunda. Þau skera losun verulega niður, þó ekki nægjanlega: Hlýnunin verður um 3° en ekki 2°, sem var hámarkið. Aðrir aðilar en ríki voru beðnir að leggja fram raunhæfar og tafarlausar skuldbindingar samkvæmt „Líma-Parísar aðgerðaáætluninni“. 1.600 borgir og 2.000 fyrirtæki hafa nú skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka endurvinnslu o.s.frv. Ísland getur gegnt miklu hlutverki. Bæði er landið í návígi við vandann, því norðurslóðir hlýna örar en tempruð svæði, en jafnframt stendur það nær lausninni því hér kunna menn að nýta endurnýjanlega orku, eins og í Reykjavík sem notar einvörðungu slíkar orkulindir til rafmagnsframleiðslu og upphitunar. Reykjavíkurborg hefur undirritað metnaðarfulla yfirlýsingu um loftslagsbreytingar ásamt öðrum höfuðborgum á Norðurlöndum. Þá hafa 103 íslensk fyrirtæki samþykkt að draga mælanlega úr losun gróðurhúsalofttegunda og sorps. Góður árangur í París byggist á málamiðlun milli ríkisstjórna og enn fremur á skuldbindingum allra borgaralegra aðila.



Skoðun

Sjá meira


×