Innlent

Þyrla flutti nýbura á Landspítalann eftir langt og strangt flug

Vísir/vilhelm
Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á Reykjavíkurflugvelli á fjórða tímanum í nótt eftir óvenju langt og erfitt björgunarflug frá Neskaupstað, með nýbura sem varð að komast undir læknishendur á Landsspítalanum hið bráðasta.

Þyrlan var við leit að manni við Ölfusá í gær þegar beiðni barst um aðstoð, en mjög hvasst og mikil rigning var þá á Austfjörðum, og skilyrði hin erfiðustu. Fyrst lenti þyrlan á Höfn, þar sem tekið var eldsneyti og stefnt á flugvöllinn í Norðfirði, en þar var vitlaust veður og fóru hviður upp í 35 metra á sekúndu. Þessu næst var reynt að lenda á Stöðvarfirði, en það var ekki hægt vegna veðurs, en loks var hægt að lenda á Breiðdalsvík þrátt fyrir mikinn vind, en hann var stöðugur.

Sjúkraflutningamenn fluttu svo nýburann af stað, en Oddskarð var ófært þannig að leyfi fékkst til að fara í gegnum nýju Norðfjarðargöngin og svo áfram til Breiðdalsvíkur. Þar beið þyrlan með lækna og hjúkrunarfræðig um borð og svo aftur tekið eldsneyti á Höfn fyrir heimferðina, sem lauk á fjórða tímanum. Þá var þyrlan búin að vera á lofti í umþaðbil 13 klukkustundir að frátöldum tveimur viðkomum á Höfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×