Menning

Vaxandi einstaklingshyggja á kostnað samfélagsins

Magnús Guðmundsson skrifar
Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri og Anna Þorvaldsdóttir, höfundur óperunnar.
Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri og Anna Þorvaldsdóttir, höfundur óperunnar. Visir/GVA

Það er ekki á hverjum degi sem frumsamdar íslenskar óperur eru sýndar á erlendri grund, eins og UR_ eftir Önnu Þorvaldsdóttur í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar. Upphafsmaður, framleiðandi og listrænn stjórnandi UR_ er Arnbjörg María Danielsen. Uppfærslan sjálf var samstarfsverkefni á milli Far North, Theater Trier í Þýskalandi, Ultima Oslo Contemporary Music Festival, Norsku óperunnar og grænlenska þjóðleikhússins. Óhætt er því að segja að um alþjóðlegt verkefni sé að ræða.

Anna Þorvaldsdóttir segir að titill verksins, UR_, vísi í „frum“ og hafi skírskotun í nokkur tungumál, en Mette Karlsvik kom með hugmyndina að þessum titli á verkið. Þorleifur bætir við að Þjóðverjar skilji til dæmis strax að átt er við hugtakið frum. „Orðið „Ur“ er hluti af þýsku og öllum norrænum tungumálum meira og minna, eins og allar íslensku ur-endingarnar, þó svo að hér vísi þetta meira í frum. En Anna valdi þetta vegna þess að þetta er svo vítt og hefur svo margar skírskotanir á mörgum tungumálum.“

Far North

Anna segir að upphafið að þessu verkefni megi rekja til Arnbjargar Maríu sem stofnaði samstarfshópinn Far North, sem vinnur m.a. að þróun samtímatónlistar í nyrstu byggðum. „Arnbjörg var með þá hugmynd að fyrsta verkefni þessa hóps yrði að panta óperu sem væri með eins konar innblæstri frá Grænlandi. Hún talaði við Þorleif um að leikstýra og mig um að skrifa óperuna. Við fórum síðan til Grænlands, og það er afskaplega auðvelt að vera innblásin af landinu. 

Hvað verkið sjálft varðar þá endurspeglast sá innblástur helst í þeirri nálgun sem ég tók þegar ég skrifaði verkið og í samvinnunni okkar á milli, frekar en að koma beinlínis fram í sviðsetningunni sjálfri.“ Um þessar mundir er verið að sýna UR_ nokkuð víða og Þorleifur segir að frumsýningin hafi verið í Þýskalandi. „Í framhaldinu fórum við til Noregs og vorum nýlega á íslensku listahátíðinni í Sviss. Síðan verða fleiri sýningar í Þýskalandi og Noregi. Svo stendur til að við verðum á Listahátíð í Reykjavík í vor.“ 

UR ópera

Marglaga verk

Þorleifur segir að UR_ sé fyrst og fremst abstrakt póetískt verk. „Fyrir mér leggur það upp spurninguna hvort við erum búin að tapa tengslum við náttúruna í sjálfum okkur og samfélaginu. Með vaxandi einstaklingshyggju þar sem ég-ið kemur í forgrunninn á kostnað samfélagsins og þar með meðvitundinni um að tilheyra einhverju stærra. Síðan er ákveðin mótsögn í þessu því margt af því fallegasta og besta, eins og t.d. að geta skrifað svona verk, kemur frá einstaklingum. Þannig að við erum búin að finna margt fallegt en höfum líka tapað öðru.“ 

Anna tekur undir þetta og bendir á að í verkinu séu t.d. þrír söngvarar sem mynda táknmynd einnar manneskju – manneskjunnar sem er um margt að berjast við sjálfa sig í leit að tjáningu á því sem tungumálið getur ekki komið til skila. Að auki þá er flygill settur fram sem hlutverk í verkinu, og vísar það í táknmynd vestrænnar tónlistarsögu og margt fleira. Ég hef ekki gert óperu áður, og það er allt annað að vinna með leikhúsið að leiðarljósi, það þarf að hugsa á svo margbreytilegan hátt með leikhúsverki.“ Þorleifur bætir við að það hafi líka verið gaman að fylgjast með áhorfendum takast á við óperu án hefðbundinnar frásagnar. „Áhorfendur tóku þátt í þessum umbrotum og voru ákaflega leitandi í raun eins og verkið sjálft, sem skilur líkast til eftir sig fleiri spurningar en svör. En viðtökurnar hafa satt best að segja verið firnagóðar og það gleður okkur mikið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×