Lífið

Margverðlaunaður lífsstílsbloggari á landinu

guðrún ansnes skrifar
Camilla var afar ánægð með sig þegar hún sagði fylgjendum frá að hún hefði tekið pásu á eldfjalli.
Camilla var afar ánægð með sig þegar hún sagði fylgjendum frá að hún hefði tekið pásu á eldfjalli. Vísir/Camille Pihl
Norski verðlaunabloggarinn Camilla Pihl er stödd hér á landi og nýtur sín í hvívetna ef marka má Instagram-reikning bloggarans.

Hefur þessi bloggstórstjarna Norðmanna flogið um í þyrlu og skoðað eldstöðvar okkar fallega lands, baðað sig í náttúrulaugum á Laugarvatni og notið sín á veitingahúsum borgarinnar. Þá hefur henni tekist að fjúka af hrossi, sem hún hugðist ríða út í íslensku veðurófreskjunni sem farið hefur um landið upp á síðkastið. Hún var þó fljót að fyrirgefa þar sem hún er gjörsamlega heltekin af Íslandi og segist yfir sig ástfangin af landinu.

Camilla þykir ein af þeim flottari í bransanum sé horft til skandinavískra lífsstílsbloggara. Hún er einnig liðtæk á Instagram þar sem hún hefur komið sér upp tæplega áttatíu þúsund fylgjendum.

Camilla leit við á Reykjavik Roasters og lofsamaði kaffibollann þar í bak og fyrir. Hún var ekki síður sátt með hundinn.
Camilla hefur einnig gert garðinn frægan fyrir að hanna sína eigin skólínu fyrir skórisann Bianco. Þá hefur hún látið til sín taka í hönnun skartgripa og lagði nafn sitt við línu sjálfs Davids Andersen.

Ekki liggur ljóst fyrir hvað hún er að gera hérlendis en hún merkir myndirnar sínar samviskusamlega #sponsored, eða eins og það útleggst á íslensku, #kostað, svo gera má ráð fyrir að henni sé boðið hingað til lands af einhverju fyrirtæki.

Ekki liggur ljóst fyrir að svo stöddu um hvaða fyrirtæki ræðir, en verður vissulega spennandi að fylgjast með.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×