Innlent

Fanneyju vel fagnað eftir einstakt afrek

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Fanney Hauksdóttur, sem setti heimsmet og varði heimsmeistaratitil í bekkpressu á dögunum, var vel fagnað í hátíðarsal Gróttu í dag. Menntamálaráðherra sagði afrek hennar einstakt en hún lyfti vel rúmlega tvöfaldri líkamsþyngd sinni þegar hún sló metið.

Fanney, sem æfir kraftlyftingar hjá Gróttu, gerði sér lítið fyrir og varði heimsmeistaratitil sinn í bekkpressu unglinga og sló heimsmet í sínum flokki þegar hún lyfti 145,5 kílóum. Það er vel rúmlega tvöföld líkamsþyngd hennar en Fanney er 61 kíló.

„Það er ekki hægt að ætlast til þess að við Íslendingar eignumst heimsmeistara. Það er eiginlega fráleitt að ekki stærri þjóð en okkar geti státað af slíku. En hérna er tvöfaldur heimsmeistari sem á heimsmet og það er auðvitað alveg einstakt íþróttaafrek,“ sagði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra þegar Fanney var heiðruð í dag.

Fanney hefur bakgrunn í fimleikum og keppti í þeirri íþróttagrein áður en hún byrjaði í kraftlyftingum fyrir nokkrum árum. En hverju þakkar hún þennan góða árangur?

„Kraftlyftingadeildinni hjá Gróttu, sérstaklega Ingimundi (Björgvinssyni) þjálfara mínum. Fjölskyldunni heima og Seltjarnarnesbæ. Það voru margir sem komu að þessu,“ segir Fanney sem æfir fjórum sinnum í viku að minnsta kosti.

Fanney ætlar aftur að keppa á heimsmeistaramótinu á næsta ári.

„Ég var að klára unglingaflokkinn þetta árið. Næst tekur opni flokkurinn við og þá setur maður sér ný markmið og heldur áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×