Erlent

Tveir menn grunaðir um aðild að Lockerbie árásinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Af þeim 270 sem létu lífið í árásinni dóu ellefu á jörðu niðri þegar brak féll á þorpið Lockerbie.
Af þeim 270 sem létu lífið í árásinni dóu ellefu á jörðu niðri þegar brak féll á þorpið Lockerbie. Vísir/AFP
Saksóknarar í Skotlandi hafa borið kennsl á tvo menn frá Líbýu sem eru grunaðir um aðild að Lockerbie árásinni. Árið 1988 var flugvél frá Pan Am sprengd í loftinu yfir bænum Lockerbie í Skotlandi.

270 manns létu lífið í árásinni.

Árið 2001 var leyniþjónustumaður frá Líbýu, Abdelbaset Ali Mohmed Al Megrahi, dæmdur í fangelsi fyrir aðild sína að árásinni en grunur leikur á að mennirnir tveir hafi einnig komið að árásinni. Megrahi lét lífið fyrir þremur árum, en hann var sá eini sem hefur verið dæmdur vegna árásarinnar.

Yfirvöld í Skotlandi og Bandaríkjunum vinna að málinu í sameinungu.

Æðsti yfirmaður dómsmála í Skotlandi sendi í dag bréf til dómsmálaráðherra Líbýu í Tripoli og fór fram á aðstoð, samkvæmt AFP fréttaveitunni.

Báðir mennirnir hafa verið nafngreindir, en annar þeirra er einnig fyrrverandi meðlimur í leyniþjónustu Muammar Gaddafi, fyrrverandi einræðisherra Líbýu sem velt var úr sessi árið 2011. Hann er í haldi núverandi yfirvalda landsins og hefur verið dæmdur til dauða.

Hinn maðurinn er sprengjusérfræðingur sem einnig er í haldi þarlendra yfirvalda. Fjölskyldur fórnarlamba árásarinnar hafa tekið þessum fregnum fagnandi.

Stjórnvöld Gaddafi viðurkenndu ábyrgð Líbýu á árásinni árið 2003 og greiddu 2,7 milljarða dala bætur til fjölskyldna hinna látnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×