Innlent

Alnæmisbörn safna fyrir verkmenntaskóla

Samúel Karl Ólason skrifar
Rosette Nabuuma, framkvæmdastjóra Candle Light Foundation og Sigríður Baldursdóttir, formaður Alnæmiabarna fyrir framan nýju bygginguna.
Rosette Nabuuma, framkvæmdastjóra Candle Light Foundation og Sigríður Baldursdóttir, formaður Alnæmiabarna fyrir framan nýju bygginguna.
Verið er að leggja lokahönd á verkmenntaskóla fyrir bágstaddar stúlkur í Úganda. Félagið Alnæmisbörn á Íslandi stendur að byggingu skólans fyrir systursamtök sín Candle Light Foundation. Aðilar á svæðinu, sem og nemendur eru ánægðir með framtakið.

Sigríður Baldursdóttir, formaður Alnæmisbarna, fór til Úganda í febrúar til þess að fylgjast með framvindu verkefnisins.

Alnæmisbörn og CLF nýttu ferð Sigríðar til þess að útbúa fimm ára vinnuplan fyrir skólann sem byggir á reynslu fyrrverandi nemenda skólans. Einnig var haldinn fundur með mikilvægum aðilum á svæðinu þar sem skólinn rís til þess að geta hlýtt á og tekið tillit til skoðana þeirra við skipulag skólans.

Í tilkynningu frá Alnæmisbörnum kemur fram að úttekt á verkefninu sýni að nemendur séu almennt ánægðir með námið. Þá séu aðilar á svæðinu spenntir fyrir skólanum.

Áætlað er að námskeið munu hefjast í skólanum í maí næstkomandi og mun þá vera boðið upp á námskeið í hárgreiðslu, fatasaumi, bakstri og matargerð ásamt námskeiði þar sem stúlkum er kennt að búa til ýmsar vörur sem eru söluvænlegar, svo sem hálsmen og annað handverk. Stúlkunum verður auk þess boðið uppá hagnýt námskeið í lífsleikni, fyrirtækjarekstri, tölvunotkun og ensku.

Starf Alnæmisbarna og CLF er liður í því að stuðla að auknu kynjajafnrétti í Úganda þar sem konur hafa staðið höllum fæti í samfélaginu miðað við karlmenn, sérstaklega þegar kemur að menntun.

Í tilkynningunni segir stúlkur þar í landi flosni oft ungar úr námi af mismunandi ástæðum. Sem dæmi er nefnd fátækt, foreldramissir, barneignir, óviðeigandi aðstæður í skólum og ríkjandi viðhorf um að menntun drengja sé mikilvægari en menntun stúlkna.

Fjáröflun Alnæmisbarna til þess að kaupa tæki og tól fyrir verkmenntaskólann mun halda áfram um helgina. Sala verður haldin á ýmsum munum frá Úganda svo sem hálsfestum, armböndum, eyrnalokkum, töskum og svuntum í Kolaportinu laugardaginn 28. mars.

Frekari upplýsingar verður að finna á heimasíðu Alnæmisbarna. Einnig er hægt að millifæra á bankareikning félagsins: 0301-13-302043, kennitala: 560404-3360.

Nemendur hjá CLF sem eru að læra fatasaum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×