Vopnaðar sveitir sjíta, sem hliðhollar eru stjórnvöldum í Bagdad, sitja nú um borgina Ramadi í Anbar héraði. Borgin féll í hendur Íslamska ríkisins fyrr í mánuðinum. ISIS hefur hins vegar haldið hlutum Anbar frá því í fyrra. Talsmaður sveitanna, sem einnig er þingmaður í Írak, segir að það muni ekki taka langan tíma að reka ISIS úr héraðinu.
Ahmed al-Assadi sagði blaðamönnum í Írak í morgun að nýjum vopnum yrði beitt gegn ISIS og að þau myndu „koma óvininum á óvart“. Samkvæmt AP fréttaveitunni var einnig sagt frá því í ríkissjónvarpi Írak að stór aðgerð væri að hefjast í Anbar.
Bardagar hafa geisað um Ramadi í mánuði áður en borgin féll. Auk þess að ná yfirráðum yfir borginni náði ISIS fjölda vopna og skotfæra sem íraskir hermenn skildu eftir. Ash Carter, varnamálaráðherra Bandaríkjanna, sagði á Sunnudaginn að þrátt fyrir að hermennirnir hafi verið mun fleiri en vígamenn ISIS, hafi þeir ekki sýnt vilja til að berjast gegn þeim.
Talsmaður Haider al-Abadi, forsætisráðherra Írak, segir að yfirvöld í Bagdad væru hissa á þessum orðum Carter. Þeir sögðu að líklega hefði ráðherrann fengið rangar upplýsingar.
Forsætisráðherrann hefur áður kallað vopnaðar sveitir sjíta til hjálpar í baráttunni gegn ISIS og hafa þeir skipt sköpum. Þessir hópar hafa þó verið gagnrýndir fyrir fyrir að rán, skemmdir og hefndarárásir gegn íbúum.
