Erlent

Tyggjó komið á tyggjóvegginn á nýjan leik

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Tekið skal fram að þessi mynd er frá árinu 2010.
Tekið skal fram að þessi mynd er frá árinu 2010. vísir/getty
Tyggjóveggurinn í Seattle var ekki auður lengi. Borgaryfirvöld hófust handa við hreinsun veggsins í síðustu viku en fyrstu tyggjóklessurnar voru komnar upp á vegginn á ný um helgina.

„Úr því við vorum að gera eitthvað svona kjánalegt og tilgangslaust þá ákváðum við að reyna að gefa þessu örlitla merkingu,“ segir Egan Orion í samtali við Seattle Times. Hann, í félagi við aðra, setti fyrstu nýju tyggjóklessurnar á vegginn síðastliðinn laugardag en þeir röðuðu klessunum þannig upp að þær mynduðu Eiffel-turninn. Var það gert til að minnast fórnarlamba hermdarverkanna í París síðastliðið föstudagskvöld.

Það hafði tekið starfsmenn borgarinnar 130 klukkustundir að fjarlægja rúmlega tonn af tyggigúmmíi af veggnum. Var það í fyrsta skipti sem veggurinn stóð auður.

Veggurinn er staðsettur við Pike Place Market og er vinsæll ferðamannastaður. Fólk hvaðanæva úr heiminum hefur gert sér ferð að honum til að klessa jórturleðri á hann.

Myndband af því hvernig veggurinn lítur út nú má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Tyggjóveggurinn í Seattle hreinsaður

Veggurinn varð að vinsælum ferðamannastað, allt frá því að fólk byrjaði að klína tyggjóklessum á vegginn fyrir um tuttugu árum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×