Skoðun

Fjölbreyttari hlutabréfamarkaður með First North

Sigurður Óli Hákonarson skrifar
Skráning á hlutabréfamarkað hefur margs konar ávinning í för með sér. Félög öðlast beint aðgengi að fjárfestum sem auðveldar fjármögnun og ytri vöxt. Verðmyndun verður skilvirkari og seljanleiki hlutabréfa eykst sem getur liðkað fyrir eigendabreytingum. Félög verða sýnilegri og skráningu fylgir gæðastimpill gagnvart þeim aðilum sem þau eiga í samskiptum við. Skráð félög eiga auðveldara með að gera starfsmenn að hluthöfum sem styrkir stöðu þeirra í samkeppni um hæft starfsfólk. Að öðru óbreyttu ætti skráning einnig að draga úr áhættu félaga í augum fjárfesta og getur þannig stuðlað að hærra markaðsvirði þeirra.

First North markaður hentar vel fyrir minni og meðalstór fyrirtæki sem telja skráningu á Aðalmarkað of íþyngjandi og kostnaðarsama. Mengi þeirra félaga sem First North skráning gæti hentað er mun stærra en í tilviki Aðalmarkaðar. Kröfur um upplýsingagjöf og dreifingu eignarhalds eru vægari en á Aðalmarkaði, ekki eru gerðar sömu kröfur varðandi skráningarlýsingu og yfirtökureglur eiga ekki við svo nokkrir þættir séu nefndir. Markaðurinn getur þannig gegnt mikilvægu hlutverki í áframhaldandi uppbyggingu hlutabréfamarkaðar á Íslandi og aukið flóru skráðra fyrirtækja.

Uppbygging First North markaðar í Svíþjóð hefur gengið vel og markaðurinn verið mjög virkur. Á fundi Íslandsbanka og Kauphallarinnar um First North á mánudaginn kom meðal annars fram að nýskráningar félaga á markaðinn það sem af er ári í Svíþjóð séu 50. Minni fyrirtæki hafa nýtt sér kosti skráningar, en yfir helmingur félaga er með markaðsvirði undir þremur milljörðum króna.

Í sumar var samþykkt lagabreyting sem veitti lífeyrissjóðum aukna heimild til fjárfestinga í fyrirtækjum skráðum á First North markaði. Heimildin nam 5% af hreinni eign lífeyrissjóðanna sem samsvarar um 157 milljörðum króna miðað við stöðu þeirra í dag. Sú fjárhæð jafngildir um áttföldu markaðsvirði skráðra hlutabréfa á First North markaði á Íslandi. Það er því ljóst að lífeyrissjóðir hafa burði til að styðja við uppbyggingu markaðarins og fjölgun félaga á íslenskum hlutabréfamarkaði.

Það er óskandi að First North markaðurinn hér á landi stækki á næstu misserum og geti gefið minni og meðalstórum fyrirtækjum tækifæri til að njóta kosta skráningar eins hann gerir í Svíþjóð.




Skoðun

Sjá meira


×