Erlent

Krabbameinssjúkur maður dæmdur fyrir framleiðslu á metamfetamíni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
George Rogers (í efri röðinni, lengst til vinstri) og kónar hans fengu samtals 80 ára langa fangelsisdóma.
George Rogers (í efri röðinni, lengst til vinstri) og kónar hans fengu samtals 80 ára langa fangelsisdóma. mynd/sky news
Krabbameinssjúkur maður á áttræðisaldri hefur verið dæmdur í 18 ára fangelsi fyrir að stýra glæpahring sem virðast hafa leitað innblásturs í hina geysivinsælu sjónvarpsþætti Breaking Bad.

Hinn 78 ára gamli George Rogers hafði frumkvæði að því að rotta saman mönnum í glæpagengi, þar á meðal efnafræðingi sem átti að sjá um framleiðslu á metamfetamíni.

Þrátt fyrir veikindi sín tókst honum að setja saman hóp manna hvaðanæva af Bretlandseyjum sem keypti kíló af kókaíni með það að markmiði að láta sölu á því fjármagna tækjakaup fyrir metamfetamínframleiðsluna.

Þessi atburðarás er talin minna óþægilega mikið á söguþráð þáttanna Breaking Bad sem fjalla um efnafræðikennarann Walter White sem hefur framleiðslu á efninu til að greiða fyrir dýra krabbameinsmeðferð.

Breaking Bad fjallar um ævintýri þeirra Walter White og Jesse Pinkman.
George Rogers kom þó efni sínu aldrei á markað því að breskir lögreglumenn náðu að hafa hendur í hári hans áður en fyrsti skammturinn hafði verið seldur.

Lögreglan komst á snoðir um fyrirætlanir Rogers eftir að hafa hlerað bifreiðar kóna hans. 

Átján meðlimir gengisins hafa nú verið dæmdir til fangelsisvistar næstu fjögur til 18 árin eftir þriggja mánaða löng réttarhöld í Bristol. Við réttarhöldin kom meðal annars fram að Rogers, sem losnaði úr fangelsi meðan ráðabruggið var í bígerð, hafði ætlað að selja efnið í suðvesturhluta Bretlandseyja en í frétt Sky News um málið segir að metamfetamín sé tiltölulega óalgengt á þeim slóðum.

George Rogers hlaut 18 ára dóm fyrir aðild sína að málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×