Erlent

„Forseti fólksins“ fallinn frá

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Abdul Kalam með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands árið 2005.
Abdul Kalam með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands árið 2005. Vísir/valgarður
A.P.J. Abdul Kalam, fyrrum forseti Indlands, lést í dag 83. ára að aldri. Kalam hneig niður er hann flutti fyrirlestur við IIM í Shillong fyrr í dag.

Honum var flýtt á sjúkrahús en var úrskurðaður látinn rúmum tveimur tímum síðar. Endurlífgunartilraunir lækna báru ekki árangur.

Kalam var ellefti forseti Indlands og gegndi embætti frá árinu 2002 til 2007 og naut gríðarlegrar hylli almennings sem kallaði Kalam „forseta fólksins.”

Áður en hann gegndi embætti forseta Indlands vann Kalam við geimferðaáætlun Indverja ásamt því að koma að þróun sprengjuflauga hersins og fékk því viðurnefnið „eldflaugamaðurinn.“ 

Búist er við því að báðar deildir indverska þingsins heiðri minningu Kalams og að sjö daga langri þjóðarsorg verði lýst yfir í landinu vegna fráfalls fyrrum forsetans.

Abdul Kalam kom hingað til lands í opinbera heimsókn árið 2005 þar sem hann ræddi við íslenska ráðamenn um samvinnu Íslands og Indlands á ýmsum sviðum, til að mynda á sviði jarðskjálftavarna og lyfjaþróunar. Þá heimsótti hann einnig höfuðstöðvar Actavis í Hafnarfirði og lagði þar hornstein að nýrri byggingu fyrirtækisins.

Kalam lagði einnig mikla áherslu á að ræða við námsmenn á ferðalögum sínum og hitti hann meðal annars stúdenta í Háskóla Íslands þegar hann kom hingað til lands. Sagði hann þeim í stuttu máli frá hugmyndum sínum um hvernig þróun indversks samfélags geti orðið í framtíðinni til þess að það markmið náist að enginn verði undir fátæktarmörkum á Indlandi árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×