Fótbolti

Balotelli hjálpar hvorki AC Milan né Liverpool næstu mánuðina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli.
Mario Balotelli. Vísir/Getty
Mario Balotelli þarf líklega að gangast undir kviðslitsaðgerð og verður frá keppni næstu þrjá mánuðina. Balotelli er leikmaður Liverpool en hefur verið í láni hjá AC Milan.

Balotelli fer væntanlega í aðgerðina á næstu dögum samkvæmt frétt ítalska blaðsins Gazzetta dello Sport. Hann fékk þau tíðindi frá sérfræðingi sem ítalski framherjinn fór til í Kaupmannahöfn.  

Næst á dagskrá hjá Balotelli er að fá lokaálit fráþýskum sérfræðingi áður en hann leggst á skurðarborðið.

Balotelli hefur ekkert spilað með liði AC Milan síðan að hann meiddist 27. september síðastliðinn en hann var þá að glíma við meiðsli í nára.

Balotelli verður því ekki leikfær fyrr en í kringum miðjan febrúar. Balotelli fær því ekki langan tíma til að vinna sér sæti í ítalska landsliðinu fyrir Evrópumótið næsta sumar.

Liverpool keypti Balotelli frá AC Milan fyrir sextán milljónir punda haustið 2014 og Liverpool er að borga hluta af launum hans í dag. Hann hjálpaði Liverpool ekki mikið á síðasta tímabil þar sem hann skoraði bara 4 mörk í 28 leikjum.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er í vandræðum vegna meiðsla framherja Liverpool, en hann er ekkert að fara að fara kalla meiddan Balotelli heim úr láni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×