Lífið

Óli Geir afbókaður á Samvest: „Í nánast hverjum mánuði er mér neitað að koma fram“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Óli Geir lendir oft í því að vera afbókaður.
Óli Geir lendir oft í því að vera afbókaður.
Ólafur Geir Jónsson, betur þekktur sem DJ Óli Geir, fær ekki að koma fram á grunnskólahátíðinni SAMVEST í Bolungarvík. Hann var afbókaður og er ósáttur með það, hann telur að hann sé iðulega afbókaður á grunnskólahátíðir vegna fortíðar sinnar.

„Trekk í trekk lendi ég í því að vera bókaður á grunnskóla skemmtun, sem eru by the way skemmtilegustu gigg til að koma fram á. Í nánast hvert einasta skiptið er ég afbókaður af skólastjóra, kennara eða forsvarsmanni úr félagsmiðstöð. Það sorglega við þetta er að þessir aðilar eiga að kenna krökkum að fyrirgefa, allir eiga skilið annan séns, batnandi mönnum er best að lifa og allir gera mistök, eins og ég gerði með eitthvað Dirty Night partý þegar þessir unglingar í dag voru í bleyju. En einhvernvegin gilda þessar reglur ekki um mig. Ég hef verið á svörtum lista hjá félagsmiðstöðvum í mörg ár og sama hvað ég geri, sama hvað ég reyni, það ætlar aldrei að taka enda. Ef ég er bókaður í einhvern skóla/félagsmiðstöð þá eru ákveðnir aðilar sem hringja í þessar stofnanir og fá þau til að afbóka mig, jújú, því ég er bara allsengin fyrirmynd," segir Óli Geir á Facebook-síðu sinni.

Hann segir að krakkarnir séu þeir sem séu að tapa, þeir missi af góðum böllum. Hann vill koma því á framfæri að hann vildi spila á þessari hátíð og öðrum hátíðum sem hann hefur verið afbókaður á og sé ekki að bregðast aðdáendum sínum:

„Ástæðan fyrir því að ég sé að pósta þessu er eingöngu vegna þess að ég veit um mörg dæmi þar sem krakkarnir hafa verið brjálaðir því ég kem ekki fram á þeirra böllum því þau halda að ég sé að hætta við sjálfur. Stundum er logið af þeim til að hafa þau róleg með því að segja að ég hafi hætt við sjálfur að koma, ekki verið laus þennan dag, ég hafi ekki komist og þess háttar, það finnst mér virkilega brutal.“

Óli geir varpar einnig fram spurningunni hvað sé fyrirmynd.

„Hvað er að vera fyrirmynd? Ég reyki ekki, ég dópa ekki. Ég stunda líkamsrækt, ég er einkaþjálfari, ég stunda íþróttir og hef gert alla mína ævi. Ég held reglulega viðburði til styrktar góðgerðamála og lengi gæti ég haldið áfram. Í nánast hverjum mánuði er mér neitað að koma fram á unglingaskemmtunum, afhverju? Því mér er sagt að ég sé ekki góð fyrirmynd. Ástæðan sem mér er gefin er sú að ég hélt Dirty Night fyrir 5 árum og að krakkar undir aldri mæti á vínveitingastaði sem ég kem fram á, eins og það sé mér að kenna.“

Hann endar pistil sinn með því að senda kveðju á krakkana sem höfðu beðið eftir honum á SAMVEST. „Ég er virkilega sár yfir því að mega ekki koma og spila fyrir ykkur, við hefðum skemmt okkur vel saman.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×