Erlent

Enn ein hópnauðgunin á Indlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Hópnauðgunarmál hafa verið áberandi í indverskum fjölmiðlum síðustu ár og vakið upp mikla reiði meðal almennings.
Hópnauðgunarmál hafa verið áberandi í indverskum fjölmiðlum síðustu ár og vakið upp mikla reiði meðal almennings. Vísir/AFP
Fimm menn hafa verið handteknir á Indlandi vegna gruns um að hafa rænt og ítrekað nauðgað japönskum námsmanni í borginni Kalkútta í austurhluta landsins. Lögregla segir að konunni hafi verið rænt þann 23. nóvember og hafi árásirnar staðið yfir í rúman mánuð á að minnsta kosti tveimur mismunandi stöðum í landinu.

Talsmaður lögreglu segir að liðsmenn gengis í borginni séu grunaðir um að beina spjótum sínum að kvenkyns ferðamönnum sem eru einir á ferð.

Hópnauðgunarmál hafa verið áberandi í indverskum fjölmiðlum síðustu ár og vakið upp mikla reiði meðal almennings, sér í lagi eftir að ungri konu var hópnaugað í strætisvagni í Nýju-Delí og lést í kjölfarið fyrir tveimur árum síðan.

Pallav Kanti Ghosh, talsmaður lögreglunnar í Kalkútta, segir að tveir árásarmannanna, sem eru bræður, hafi nálgast 23 ára konuna undir því yfirskini að vera leiðsögumenn þegar hún mætti til borgarinnar og skráði sig inn á hótel í vinsælu ferðamannahverfi. „Einn mannanna talaði reiprennandi japönsku.“

Ghosh segir mennina hafa farið með konuna til strandbæjarins Digha þann 23. nóvember. Þar hafi þeir ráðist á hana og rænt með því að taka út fé af bankakorti hennar.

Í frétt BBC kemur fram að konan hafi síðar verið flutt til Bodh Gaya, helgasta staðar meðal búddista, sem einnig er vinsæll ferðamannastaður. Þar var henni áfram haldið og nauðgað ítrekað.

Konan slapp úr haldi mannanna í lok desember og hélt aftur til Kalkútta þar sem hún tilkynnti um málið á japönsku ræðismannsskrifstofunni.

Ghosh segir að þrír mannanna hafi verið handteknir nærri Bodh Gaya og tveir í Kalkútta, en lögregla leitar nú fleiri liðsmanna gengisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×