Erlent

Miklir skógareldar í Adelaide Hills

Atli Ísleifsson skrifar
Um 40 þúsund manns búa í Adelaide Hills þar sem smábæir og bóndabæir eru dreifðir um stórt svæði í stórbrotinni náttúru.
Um 40 þúsund manns búa í Adelaide Hills þar sem smábæir og bóndabæir eru dreifðir um stórt svæði í stórbrotinni náttúru. Mynd/Greenhill Country Fire Service
Miklir skógareldar geisa nú í Adelaide Hills, norðaustur af áströlsku borginni Adelaide. Líkur eru á að þetta verði mestu skógareldar í Suður-Ástralíufylki frá árinu 1983 þar sem sjötíu manns fórust.

Í frétt Guardian segir að sex hús hafi þegar orðið eldunum að bráð og margfalt fleiri stafi hætta af eldunum þar sem búist er við að vindur muni aukast þegar líða tekur á helgina.

Fleiri þúsund manns hafa flúið heimili sín og um tvö þúsund slökkviliðsmenn vinna nú að því að ráða niðurlögum eldsins. Á annan tug sérútbúinna flugvéla eru meðal annars notaðar til verksins.

Jay Weatherill, fyrsti ráðherra fylkisins, hefur hvatt íbúa til að yfirgefa svæðið þegar í stað.

Enn sem komið er hafa ekki borist fregnir af mannskaða. Um 40 þúsund manns búa í Adelaide Hills þar sem smábæir og bóndabæir eru dreifðir um stórt svæði í stórbrotinni náttúru. Svæðið er þekkt fyrir landbúnaðarafurðir sínar og vín.

Eldurinn breiðist nú í allar áttir á svæði sem nefnist Sampson Flat. Á einungis sólarhring hefur eldurinn breiðst út frá því að þekja 154 hektara svæði yfir í 4.700 hektara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×